Haile Gebrselassie, fyrrverandi heimsmethafi í 5.000 og 10.000 m hlaupi frá Eþíópíu, lýsti því yfir á blaðamannafundi í Aþenu í gær að hann hefði tekið þátt í sínu síðasta brautarhlaupi. Nú ætlaði hann að snúa sér að maraþonhlaupum og stefndi að þátttöku í þeirri grein á Ólympíuleikunum í Peking í Kína eftir fjögur ár. Gebrselassie, sem stendur á þrítugu, hafnaði í 5. sæti í 10.000 m hlaupinu á Ólympíuleikunum að þessu sinni en vann gull í Atlanta 1996 og í Sydney fjórum árum síðar.
Gebrselassie bar höfuð og herðar yfir aðra hlaupara í 5 og 10 km hlaupi lengst af á síðasta áratug og setti þá hvert heimsmetið á fætur öðru, jafnt innanhúss sem utan. Síðustu ár hefur hann ekki náð sér fullkomlega á strik og kennir þrálátum meiðslum í hásinum um.
"Ég ætla ekki að hætta að keppa í hlaupum, heldur hyggst ég hætta brautarhlaupum. Á föstudaginn hljóp ég á braut í síðasta sinn í alþjóðlegri keppni," sagði Gebrselassie með sitt heimsþekkta bros á vör á blaðamannfundi í dag. "Mig langar til þess að flytja mig yfir í maraþonhlaup. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur mér ekki vegnað sem best á hlaupabrautinni og þar er meiðslum um að kenna."
Gebrselassie keppti í Lundúnamaraþoni fyrir tveimur árum, kom í mark á tveimur klukkustundum, sex mínútum og 35 sekúndum sem er 13. besti tími sem náðst hefur. Kenýumaðurinn Paul Tergat á besta tímann, 2:04.55. "Ég stefni að því að ná besta tíma sem náðst hefur í maraþonhlaupi en það verður ekki neinn hægðarleikur því Tergat er enn að taka framförum," segir Gebrselassie.