Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson, milliríkjadómarar í handknattleik, stóðu sig mjög vel er þeir dæmdu undanúrslitaleik Ungverjalands og Króatíu í gær. Tíu leikir eru nú eftir í handknattleikskeppninni á ÓL.
Sex þeirra verða leiknir í dag og eru þeir Stefán og Gunnar ekki dómarar á þeim, en fjórir leikir eru á morgun - þrír kvennaleikir um sex efstu sætin og úrslitaleikur karla, Þýskaland - Króatía. Það eru miklar líkur á að þeir félagar dæmi þann leik, þar sem Kjartan Steinbeck verður eftirlitsmaður á úrslitaleik kvenna á morgun, Danmörk - Suður-Kórea.
Heimsmeistarar Frakka töpuðu óvænt fyrir Suður-Kóreu í undanúrslitum í gær, 32:31 og Dani lögðu Úkraínu, 29:20.