Ólympíuleikunum í Aþenu slitið

Flugeldar lýsa upp loftið yfir ólympíuleikvanginum í Aþenu.
Flugeldar lýsa upp loftið yfir ólympíuleikvanginum í Aþenu. AP

Jacques Rogge, forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar, sleit ólympíuleikunum í Aþenu í kvöld og hrósaði skipuleggjendum leikanna fyrir vel unnin störf. „Þið hafið unnið," sagði Rogge og sagði að leikarnir hefðu verið ógleymanlegir og gengið eins og í draumi. Hvatti hann ungdóm heimsins til að koma saman eftir fjögur ár í Peking, höfuðborg Kína, og fagna þar 29. ólympíuleikunum. „Þakka þér, Aþena. Þakka þér, Grikkland," sagði Rogge. Ólympíufáninn var síðan afhentur Wang Qishan, borgarstjóra Pekingborgar.

Lyfjamál hafa sett svip á ólympíuleikana frá því áður en þeir voru settir þegar gríska þjóðhetjan Kostadinos Kenteris mætti ekki í lyfjapróf. Ungverski sleggjukastarinn Adrian Annus var í dag sviptur gullverðlaunum sínum fyrir að vilja ekki gangast undir lyfjapróf og kólumbíska hjólreiðakonan Maria Luisa Calle Williams var í dag svipt bronsverðlaunum fyrir að falla á lyfjaprófi.

Rogge sagði í lokaræðu sinni, að heiðarlegir íþróttamenn væru að ná yfirhöndinni. „Þetta voru leikarnir þar sem það varð erfiðara að svindla, og þar sem hreinir íþróttamenn nutu betri verndar. Þetta voru leikarnir þar sem þið, íþróttamennirnir, snertuð hjörtu okkar með frammistöðu ykkar, gleði og sorg."

Bandaríkjamenn fengu flest verðlaun á leikunum, 103 talsins, þar af 35 gullverðlaun. Kínverjar fengu 63 verðlaun, þar af 32 gullverðlaun, Rússar fengu 92 verðlaun, þar af 27 gullverðlaun og Ástralir fengu 49 verðlaun, þar af 17 gullverðlaun.

Wang Qishan, borgarstjóri Peking, veifar ólympíufánanum.
Wang Qishan, borgarstjóri Peking, veifar ólympíufánanum. AP
Fánaborg á ólympíuleikvanginum í kvöld. Þórey Edda Elísdóttir bar íslenska …
Fánaborg á ólympíuleikvanginum í kvöld. Þórey Edda Elísdóttir bar íslenska fánann inn á leikvanginn. AP
Blys loga á lokaathöfn ólympíuleikanna í Aþenu.
Blys loga á lokaathöfn ólympíuleikanna í Aþenu. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert