Nikolaj Durmanov, sem á sæti í lyfjanefnd rússnesku Ólympíunefndarinnar, segir að Irina Korzhanenko, gullverðlaunahafi í kúluvarpi kvenna, hafi sprengt ímynd rússneskra frjálsíþrótta í loft upp eftir að hún féll á lyfjaprófi á Ólympíuleikunum í Aþenu. Rússar höfðu sett alla þátttakendur sína í lyfjapróf áður en leikarnir hófust og ekki fundið neitt athugavert, en niðurstöðurnar þykja áfellisdómur yfir rússneskum rannsóknarstofum sem rannsökuðu lyfjaprófin.
Í Aþenu kom í ljós að Korzhanenko hafði notað hormónalyfið stanozolol sem er það sama og Kanadamaðurinn Ben Johnson hafði notað á Ólympíuleikunum í Seoul árið 1988. „Þetta er steinaldarlyf sem Korzhanenko hefur notað og það gerir ástandið enn verra fyrir okkur. Við vildum koma í veg fyrir að atburðirnir, sem áttu sér stað á vetrarleiknum í Salt Lake City, endurtækju sig. En þess í stað fengum við "Hiroshima" sprengju í okkar herbúðum," sagði Durmanov. Korzhanenko verður líklega ekki með í frjálsíþróttamótum framtíðarinnar þar sem hún á yfir höfði sér ævilangt keppnisbann en hún féll á lyfjaprófi árið 1999, og þá hafði hún einnig notað stanozolol.