Örn verður ekki með í Andorra

Örn Arnarson.
Örn Arnarson.

Örn Arnarson varð að draga sig úr íslenska landsliðinu í sundi sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum sem fram fara í Andorra um næstu mánaðamót. „Örn fékk lungnabólgu fyrir nokkru og var lengi að jafna sig á henni. Því var það sameiginleg niðurstaða að hann tæki ekki þátt í Smáþjóðaleikunum heldur nýtti hann tímann til að ná styrk á nýjan leik og verði klár í slaginn fyrir heimsmeistaramótið í sumar," sagði Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Sundsambands Íslands, í gær.

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is
Alls fara sextán íslenskir sundmenn á Smáþjóðaleikana að þessu sinni, en í gegnum tíðina hafa íslenskir sundmenn verið afar sigursælir á leikunum. Óskar segir að eins og ævinlega verði vandað til undirbúnings keppenda eins og kostur sé á. Yfirþjálfari verður Steindór Gunnarsson en einnig sér Eyleifur Jóhannesson um þjálfun landsliðsins fyrir leikana.

Sundlandsliðið á Smáþjóðaleikunum verður þannig skipað: Ásbjörg Gústafsdóttir, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, Erla Dögg Haraldsdóttir, Helena Ósk Ívarsdóttir, Anja Ríkey Jakobsdóttir, Auður Sif Jónsdóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Sigrún Brá Sverrisdóttir, Árni Már Árnason, Jón Símon Gíslason, Kjartan Hrafnkelsson, Baldur Snær Jónsson, Birkir Már Jónsson, Hjörtur Már Reynisson, Hilmar Pétur Sigurðsson og Jakob Jóhann Sveinsson. Auk Steindórs og Eyleifs þjálfara verður Hörður Oddfríðarson flokksstjóri og nuddari verður Dýrleif Kjóldal. Einn sunddómari verður sendur héðan til Andorra, það er Berglind Valdimarsdóttir.

Þrír klárir á HM í Montreal

Þrír íslenskir sundmenn hafa þegar náð lágmarksárangri til þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu í 50 m laug sem fram fer í Montreal í Kanada 24.-31. júlí sumar. Það eru Jakob Jóhann Sveinsson, Jón Oddur Sigurðsson og Örn Arnarson. Að sögn Óskars hjá SSÍ eru 4-5 sundmenn að glíma við lágmarksárangur fyrir mótið og vonast til að bætast í hóp þeirra þriggja sem þegar eru komnir með farseðil á mótið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert