Armstrong sagður íhuga að hætta við að hætta

Lance Armstrong skálar í kampavíni þegar hann hjólar inn í …
Lance Armstrong skálar í kampavíni þegar hann hjólar inn í París eftir að hafa unnið Frakklandshjólreiðarnar í sumar. AP

Bandaríski hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong segist íhuga að freista þess að vinna Frakklandshjólreiðarnar áttunda árið í röð. Armstrong lýsti því yfir fyrir keppnina í sumar, að hún yrði hans síðasta en hann segir nú að ásakanir Frakka um að hann hafi neytt óleyfilegra lyfja gætu breytt þeirri ákvörðun.

„Ég er að íhuga það," hafði blaðið Austin American-Statesman eftir Armstrong. „Ég held að það sé besta leiðin til að gera Frökkunum gramt í geði."

Armstrong segir við blaðið, að hann hafi byrjað að hugsa þetta mál eftir að franska íþróttablaðið L'Equipe skýrði frá því 23. ágúst að þvagsýni, sem tekið var úr Armstrong árið 1999 þegar hann keppti fyrst í Frakklandshjólreiðunum, hefði nú verið rannsakað og reynst innihalda steralyfið EPO.

Þegar blaðið spyr Armstrong hvað honum sé mikil alvara svara hann: „Ég æfi mig á hverjum degi."

Armstrong vann Frakklandshjólreiðarnar sjöunda árið í röð nú í júlí og sagði þá að það yrði sín síðasta keppni. Armstrong fullyrðir að hann hafi aldrei tekið steralyf eða önnur óleyfileg lyf í tengslum við íþróttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert