Sjö manna landslið keppir í Amsterdam

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is
Sjö íslenskir sundmenn verða í landsliðshópnum sem tekur þátt í Amsterdam Swim Cup, sem er alþjóðlegt sundmót sem haldið verður í Amsterdam 13. - 18. apríl. Að sögn Brians Marshalls, landsliðsþjálfara í sundi, komu ellefu sundmenn til greina til þátttöku en aðeins sjö gátu gefið kost á sér. Mótið er hluti af undirbúningi landsliðsins fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Búdapest í lok júlí í sumar.

Sundmennirnir sjö sem fara til Amsterdam eru Jakob Jóhann Sveinsson, Árni Már Árnason, Anja Ríkey Jakobsdóttir, Auður Sif Jónsdóttir, Oddur Örnólfsson, Ólöf Lára Halldórsdóttir og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir. Allir eru sundmennirnir úr Ægi nema Kolbrún Ýr sem er Akurnesingur.

Örn Arnarson, SH, gat ekki gefið kost á sér þar hann tekur þátt í heimsmeistaramótinu Sjanghæ nokkrum dögum fyrir mótið í Amsterdam. Þá hentaði þátttaka í mótinu ekki æfingadagskrá nýbakaðs Íslandsmethafa í 200 m skriðsundi, Birkis Jónssonar og Erlu Daggar Haraldsdóttur, en bæði æfa þau hjá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar, ÍRB.

Fjórði sundmaðurinn sem ekki kemst með til Amsterdam er Ragnheiður Ragnarsdóttir, úr KR og margfaldur Íslandsmethafi. Hún greindist með lungnabólgu á mánudag og verður ekki komin í keppnisæfingu eftir tæpan mánuð. Ragnheiður var með kvef á Íslandsmeistaramótinu í Laugardalslaug um liðna helgi og versnaði þegar á leið. Brian, landsliðsþjálfari, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að veikindin skýrðu það að Rangheiður var langt frá sínu besta í nokkrum greinum á Íslandsmeistaramótinu.

Sundsveit send á EM í Búdapest?

Brian segir að mjög líklega verði send boðsundsveit í 4x200 m skriðsundi á Evrópumeistaramótið í 50 m laug í Búdapest í sumar. Nú séu fyrir hendi fjórir afar sterkir sundmenn hér á landi sem geti synt 200 m skriðsund og því sé fyllsta ástæða til þess að skoða ofan í kjölinn hvort ekki sé tilefni til að senda sérstaka keppnissveit á mótið, en það yrði þá í fyrsta skipti sem sérþjálfuð boðsundssveit yrði send á stórmót í sundi. Sundmennirnir sem um er ræða eru, Árni Már Árnason, Birkir Jónsson, Baldur Jónsson og Örn Arnarson.

Tveir sundmenn hafa þegar náð lágmarksárangri fyrir EM í Búdapest en það eru Jakob Jóhann og Örn. Brian segist vonast til að fleiri sundmenn bætist í hópinn áður en frestur til þess að ná lágmarksárangri rennur út 18. júní.

Fjórar með farseðil á EM unglinga

Fjórar stúlkur hafa tryggt sér farseðilinn á Evrópumeistaramót unglinga sem haldið verður á Mallorca á Spáni aðra helgina í júli. Þær eru Hrafnhildur Lúthersdóttir, SH, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, Ægi, Rakel Gunnlaugsdóttir, Sundfélagi Akraness, og Sigrún Brá Sverrisdóttir, Fjölni. Brian segir ekki loku fyrir það skotið að fleiri ungmenni bætist í hópinn þar sem enn sé tækifæri til að ná lágmarksárangri til þátttöku á mótinu.

Það er því ljóst að það verður nóg um að vera hjá bestu sundmönnum þjóðarinnar á næstu mánuðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert