Dómstóll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands hefur dæmt 18 ára gamlan dansíþróttamann, Jón Eyþór Gottskálksson, í sex mánaða keppnisbann en hann féll á lyfjaprófi sem gert var eftir keppni á landsmóti Ungmennafélags Íslands í sumar. Reyndist dansarinn hafa reykt kannabis.
Í dómnum er vísað til skýrslu Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ um málavexti en þar kemur fram að dansarinn skýrði frá því að hann hafi kvöldið fyrir keppnina í fyrsta og eina sinn prófað að reykja kannabis. Þá hafi hann komið fram af hreinskilni við félag sitt og þjálfara strax að loknu lyfjaeftirliti og sagt frá því, að möguleiki væri á að hann félli á lyfjaprófinu.