FH bikarmeistari 15. árið í röð

FH er bikarmeistari í frjálsum íþróttum.
FH er bikarmeistari í frjálsum íþróttum. mbl.is/Halldór

Lið FH stóð uppi sem sigurvegari í 43. Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands á Kópavogsvelli í dag. Þetta er fimmtándi bikarmeistaratitill FH-inga í röð og vann liðið sigur bæði í stigakeppni kvenna og karla.

FH vann stórsigur í heildarstigakeppninni, náði 180,5 stigum. ÍR kom næst með 156 stig og Breiðablik varð í þriðja með 141,5 stig.

Sigurinn í kvennakeppninni var þó naumur því FH hafði aðeins hálfs stigs forskot á ÍR þegar lokagreinin, 1000 metra boðhlaup, hófst. Þar vann hins vegar sveit FH og tryggði sér með því kvennabikarinn, náði 85,5 stigum. ÍR fékk 84 stig og Breiðablik 66,5 stig.

Í karlakeppninni vann FH öruggan sigur. Liðið hlaut 95 stig en næst kom Breiðablik með 75, og skammt þar á eftir ÍR með 72 stig.

Lið UMSS lenti í neðsta sæti og fellur því um deild, og í stað þess keppir HSK í efstu deild að ári.

Lokastaðan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert