„Vissi ekki einu sinni af honum“

Sveinn Elías í 100 metra hlaupinu í dag.
Sveinn Elías í 100 metra hlaupinu í dag. mbl.is/HAG

„Þetta var bara það sem ég ætlaði mér. Ég hefði ekki verið ánægður ef þetta hefði ekki tekist,“ sagði Sveinn Elías Elíasson úr Fjölni eftir að hann kom fyrstur í mark í 400 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum á Laugardalsvelli.

Sveinn Elías vann jafnframt sigur í 100 metra hlaupi fyrr í dag. 

„Það var svolítið mikill munur í 100 metra hlaupinu þannig að ég er bara sáttur enda hljóp ég á 11,06 sekúndum í -4 m/s mótvindi,“ sagði Sveinn Elías en næstur kom Trausti Stefánsson úr FH á 11,23 sekúndum. Trausti var síðan nálægt því að komast fram úr Sveini á lokaspretti 400 metra hlaupsins.

„Ég vissi nú ekki einu sinni af honum, ég reyndi að líta hægra megin við mig en hefði kannski átt að líta í báðar áttir. Ég hafði samt engar áhyggjur og hljóp bara af öryggi. Boðhlaupið er á eftir og ég vildi vera klár í það. Ef allt gengur upp í skiptingunum þar vonumst við alla vega eftir verðlaunasæti þar,“ sagði Sveinn en hann kom í mark á 49,56 sekúndum, 26/100 á undan Trausta.

Sveinn hefur því átt góðan dag í Laugardalnum en hann segist eiga mikið inni. 

„Ég myndi vilja vera í betra formi en reif lærvöðva þrisvar í vetur og það hefur haft sín áhrif. Ég var í miklu betra formi áður en þetta gerðist en er samt alveg búinn að jafna mig núna og er smám saman að komast í nokkuð gott form,“ sagði Sveinn sem ætlar sér að sjálfsögðu einnig sigur í 200 metra hlaupinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka