„É þoli ekki að horfa á handbolta ef ég er ekki að spila sjálfur. Þetta hefur því verið ansi erfitt á köflum og sérstaklega þegar við erum að jafna á lokasekúndunum í tveimur leikjum í röð. Þegar maður er vanur því að spila handbolta þá er það gríðarlega erfitt að sitja og geta ekki haft áhrif,“ sagði handknattleiksmaðurinn Bjarni Fritszon við 24 stundir í Peking en hann er hinn „leyndardómsfulli“ 15. leikmaður Íslands sem fær ekki að vera með.
Bjarni leikur með St. Raphael í Frakklandi en hann er 28 ára gamall sálfræðingur sem hlustar á Sigur Rós og hipphopptónlist jöfnum höndum. Bjarni er í þeirri einkennilegu stöðu að vera fyrir utan leikmannahóp íslenska landsliðsins í Peking en hann hefur verið til taks ef eitthvað kæmi upp á í leikmannahópnum. Á morgun, miðvikudag, er síðasti dagurinn þar sem liðin geta gert breytingar á leikmannahópnum og er allt eins líklegt að Bjarni fari frá Peking án þess að hafa leikið eina einustu mínútu.