María Björg Ágústsdóttir, markvörður knattspyrnuliðs Vals og fyrrum landsliðsmarkvörður, mun leika áfram með Íslandsmeisturunum á komandi leiktíð, en um tíma var útlit fyrir að hún myndi leggja hanskana á hilluna. María hefur ekkert leikið með Val það sem af er undirbúningstímabilinu.
„Hún tók sér sinn tíma í að skoða sína mál og finna löngunina aftur,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Vals, í samtali við Morgunblaðið í gær, en María, sem er aðeins 27 ára, var einn af lykilleikmönnum Vals á síðustu leiktíð.
„Hún er búin að vera erlendis síðustu tvær vikur en er nú komin aftur og ætlar að vera með okkur alla vega út þetta keppnisár. Hún er búin að liggja undir feldi en við höfum verið í góðu sambandi allan tímann og hún hóf svo æfingar aftur á þriðjudaginn,“ bætti Freyr við og þvertók fyrir að hafa verið farinn að leita að nýjum markverði enda Valsmenn síður en svo á flæðiskeri staddir í þeim efnum.
sindris@mbl.is