„Enginn sagði að þetta yrði auðvelt“

Frá leiknum í Egilshöllinni í kvöld.
Frá leiknum í Egilshöllinni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Guðmundsson fyrirliði Bjarnarins, var eðlilega svekktur yfir úrslitunum gegn SA í kvöld en bjartsýnn á að Björninn geti fagnað sigri í oddaleiknum á Akureyri á miðvikudagskvöldið. SA sigraði 3:2 í Egilshöllinni og knúði fram oddaleik.

„Það var náttúrlega súrt að tapa þessu eftir að hafa verið 2:1 yfir en eins og ég hef oft sagt áður þá er leikurinn ekki búinn fyrr en á síðustu sekúndunni í íshokkí. Mörk hafa verið skoruð nánast frá miðju og staðan getur gerbreyst á nokkrum sekúndum. Við ættum að þekkja það því við spiluðum leik í vetur þar sem við vorum 2:4 undir en skoruðum þrjú á síðustu 5 mínútunum og unnum. Staðan í íshokkí getur verið ótrúlega fljót að breytast, bara eins og veðrið. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að síðasta leiknum. Við þurfum að nota tímann vel í rútunni og hugsa um okkar leik. Við þurfum að taka bara eitt púsl í einu eins og við gerðum í vetur eftir að okkur fór að ganga vel,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is að leiknum loknum en Björninn var 2:1 yfir í rimmunni og átti þess kost að fagna sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á heimavelli. 

„Ég get ekki neitað því að sú hugsun kitlaði. Það borgar sig hins vegar ekki að vera sigurviss. Þessir strákar í SA eru reyndir og einn þeirra með um tíu úrslitakeppnir á bakinu eins og kom fram um daginn. Ég held að hjá okkur séu bara tveir sem hafa spilað í úrslitakeppni áður. Þeir hafa reynsluna fram yfir okkur og þeir ná okkur stundum niður á sinn hraða. Við erum með kröftuga og öfluga stráka og verðum að reyna að halda okkur hraða. Ef þeir ná okkur niður á sinn hraða þá eru þeir búnir að ná okkur í ljónagryfju.“

Gunnar sagði rimmuna vera geysilega jafna eins og úrslitin bera með sér.„Þetta er gersamlega 50/50. Hvorugt liðið hefur eitthvað forskot enda sagði enginn að þetta yrði auðvelt. Það verður barist fram á síðustu sekúndu. Við mætum dýrvitlausir norður og ætlum okkar stóra hluti.“  

Fjallað er um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert