SA knúði fram oddaleik gegn Birninum

Frá leiknum í Egilshöllinni í kvöld.
Frá leiknum í Egilshöllinni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórði úrslitaleikur Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí hófst í Egilshöll klukkan 19:15. SA sigraði 3:2 og knúði fram oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn sem fram fer á Akureyri. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

60. mín: LEIK LOKIÐ. SA sigraði 3:2 eftir spennandi leik og knúði fram hreinan úrslitaleik um titilinn.

57. mín: Staðan er 2:3 fyrir SA. Ingólfur Tryggvi Elíasson komst í dauðafæri einn á móti Ómari markverði SA en fór á taugum og klúðraði færinu.

51. mín: Staðan er 2:3 fyrir SA. Spilandi þjálfari SA Josh Gribben skoraði með þrumuskoti af löngu færi. Björninn var með mann í kælingu og SA tókst að nýta sér það. Þrjú mörk á þriggja mínútna kafla eftir aðeins tvö mörk á fyrstu 47 mínútunum.

50. mín: Staðan er 2:2. Leikmenn Bjarnarins hafa nú tíu mínútur til stefnu ætli þeir sér að tryggja sér titilinn á heimavelli í Grafarvoginum. Verði þetta úrslitin þarf að framlengja leikinn til þess að knýja fram úrslit.

48. mín: Staðan er 2:2. Hinn reynslumikli Sigurður Sigurðsson jafnaði fyrir SA af stuttu færi eftir þrumuskot frá Ingólfi Tryggva Elíassyni. Björninn var með einn leikmann í kælingu og loksins náðu Akureyringar að nýta sér slíka stöðu.

42. mín: Staðan er 2:1 fyrir Björninn. Akureyringar misstu pökkinn og Björninn komst í skyndisókn. Daði Örn Heimisson skoraði af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Bergi Árna Einarssyni og undirbúning Guðmunar Ingólfssonar.

40. mín: Staðan er 1:1 að loknum öðrum leikhluta. Akureyringar hafa sótt talsvert meira í leiknum enda verða þeir að vinna til þess að knýja fram oddaleik í rimmunni. Þeim hefur hins vegar lítið orðið ágengt upp við mark Bjarnarins. Harkan í leiknum er talsvert og mikil stemning á meðal 450 áhorfenda í Egilshöllinni.

35. mín: Staðan er 1:1. Í annað skiptið í leiknum voru Akureyringar tveimur leikmönnum fleiri á vellinum án þess að þeim tækist að skora. Staðan er því óbreytt og allar líkur á því að spennan verði mikil í síðasta leikhlutanum. 

28. mín: Staðan er 1:1. Akureyringar voru ekki lengi að kvitta og þar var að verði Jóhann Már Leifsson. Leikmenn Bjarnarins sváfu á verðinum og Jóhann komst í dauðafæri sem hann nýtti sér. 

27. mín: Staðan er 1:0 fyrir Björninn. Róbert Freyr Pálsson skoraði með skoti af löngu færi sem markvörður SA Ómar Smári Skúlason hefði líklega átt að verja. Birgir Jakob Hansen og fyrirliðinn Gunnar Guðmundsson lögðu markið upp.

20. mín: Staðan er 0:0 að loknum fyrsta leikhluta. Andri Freyr Sverrisson var nálægt því að koma SA yfir á síðustu sekúndum leikhlutans en Snorri Sigurbergsson varði vel í marki Bjarnarins.

19. mín: Staðan er 0:0. Leikmenn virðast vera taugaóstyrkir enda mikið í húfi og þeim hefur ekki tekist að gera sér mat úr ágætum marktækifærum. Tafist hefur að ljúka fyrsta leikhluta þar sem leikmaður blóðgaðist og þá þarf að þrífa blóðið af ísnum. Verið er að hefla ísinn sem stendur. Síðustu sekúndurnar í fyrsta leikhluta verða leiknar eftir heflunina sem annars hefði verið að leikhlutanum loknum.

15. mín: Staðan er 0:0. Dæmið snérist við því SA missti tvo leikmenn út af í 2 mínútna brottvísun með skömmu millibili en Birninum tókst ekki að nýta sér það.  Leikmönnum gengur illa að brjóta ísinn ef svo má að orði komast.

10. mín: Staðan er 0:0. Björninn missti tvo leikmenn af velli í kælingu en þrátt fyrir það tókst Akureyringum ekki að nýta sér liðsmuninn og skora. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka