Gamla brýnið Sigurður Sveinn Sigurðsson reyndist SA dýrmætur gegn Birninum í Egilshöllinni í kvöld þegar hann skoraði og jafnaði leikinn í 2:2. SA sigraði 3:2 og knúði fram oddaleik á sínum heimavelli.
„Þetta var skemmtilegur leikur og hann fór eins og við ætluðum okkur. Við vorum í rauninni aldrei hræddir og tókum þetta á reynslunni. Vorum svellkaldir og kláruðum dæmið. Þetta eru ungir strákar sem við erum að spila á móti og reynslan taldi í síðasta leikhlutanum. Svo erum við einnig í svo góðu formi. Það hefur mikið verið talað um formið á Birninum en við erum í toppformi og höfum svo reynsluna til þess að bæta ofan á,“ sagði Sigurður brattur í samtali við mbl.is þegar úrslitin lágu fyrir. Hann gat ekki neitað því að það hafi verið sætt að sjá pökkinn inni í jöfnunarmarkinu.
„Það var virkilega sætt. Við höfðum verið í ströggli þegar við vorum manni fleiri og höfðum ekki skorað mark við slíkar aðstæður. Það verður að teljast vandamál hjá okkur að við erum ekki nægilega duglegir að skora þegar andstæðingarnir eru með mann í kælingu. Það gekk þó alla vega í þetta skiptið og reyndist mikilvægt mark,“ sagði Sigurður ennfremur og reiknar með að Akureyringar fylli húsið í oddaleiknum.
„Síðasti leikurinn er á miðvikudaginn og það verður gríðarlega skemmtilegt. Þá ætlum við að fylla höllina heima og þetta verður eins og árið 2001, þegar úrslitin fóru í fimm leikja rimmu og oddaleikurinn á Akureyri. Þetta er gríðarlega skemmtileg rimma og skemmtilegt fyrir íshokkíið að þetta sé svona jafnt. Undankeppnin var líka alveg frábær og þetta er eins og best verður á kosið. Við ætlum að taka titilinn og þetta verður örugglega sætasti titilinn minn,“ sagði Sigurður sem er á sínu nítjánda ári í deildinni og hefur spilað frá því að Íslandsmótið hóf göngu sína. Geri aðrir betur.
Fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.