Heimamenn í Eistlandi byrjuðu með látum í dag í 2. deild HM í íshokkí en B-riðill keppninnar fer fram í Narva. Eftir fyrsta keppnisdag eru Eistar á toppnum með besta markahlutfallið, en Ísland og Rúmenía hafa jafnmörg stig.
Ísland sigraði Nýja Sjáland 3:1 í fyrsta leik mótsins en fyrirfram eru þessar þjóðir álitnar tvær þær veikustu en þá er miðað við árangur fyrri ára.
Rúmenía féll niður úr 1. deild og því var talið að þeir væru með sterkasta liðið. Rúmenía lenti hins vegar 0:3 undir gegn Kína í dag en tókst að sigra 4:3 með því að skora 3 mörk í síðasta leikhlutanum.
Í kvöld rótburstaði Eistland lið Ísraels 17:3. Eistar féllu niður fyrir tveimur árum en tókst ekki að komast upp aftur í fyrra þar sem þeir töpuðu fyrir Serbum. Svo virðist sem Eistland sé með sterkasta liðið í riðlinum og eru auk þess á heimavelli.
Ísland mætir Rúmeníu klukkan 10 í fyrramálið að íslenskum tíma en kl 13 að staðartíma.