19 ára gamall maður leiksins

Egill Þormóðsson opnaði markareikning sinn í mótinu gegn Rúmenum.
Egill Þormóðsson opnaði markareikning sinn í mótinu gegn Rúmenum. mbl.is/Kristján Maack

„Þeir voru ekki eins sterkir og við héldum. Þeir eru auðvitað betri en við enda voru þeir að falla niður úr 1. deild og voru því fyrir mótið taldir sigurstranglegastir í riðlinu. Við gerðum okkar besta og þetta var ekkert auðvelt fyrir þá,“ sagði hinn 19 ára gamli Egill Þormóðsson sem var valinn maður leiksins í íslenska liðinu gegn Rúmenum á HM í íshokkí í Eistlandi í dag. Ísland tapaði fyrir 3:8 yfir öflugu liði Rúmena og skoraði Egill þriðja mark Íslands í leiknum.

Egill var svekktur yfir aðdragandanum að mörkum Rúmenana en mörk þeirra voru af ódýrari gerðinni. „Helmingurinn af mörkum þeirra voru óásættanleg fyrir okkur. Við misstum mennina klaufalega frá okkur og pökkurinn virtist einhvern veginn alltaf rata í netið þegar þeir skutu á markið,“ sagði Egill í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir ungan aldur er Egill að leika á HM í annað sinn því hann var einnig í liðinu í fyrra. Hann er ánægður með að vera kominn á blað í mótinu. „Jú það er mjög gott. Mér finnst sóknarleikurinn hafa gengið nokkuð vel. Við áttum mörg markskot í leiknum gegn Nýja Sjálandi. Línurnar okkar eru farnar að finna taktinn en við erum ekki allir vanir því að spila saman,“ sagði Egill og bætti því við að nú strax hæfist undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Kínverjum á þriðjudag.

Fjallað er um íslenska landsliðið í íshokkí í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert