Ísland og Rúmenía eigast við í Narva í Eistlandi klukkan 10 í B-riðli 2. deildar á HM í íshokkí. Bæði liðin unnu leiki sína í 1. umferð í gær. Rúmenar sigruðu 8:3 og voru númeri of stórir fyrir íslenska liðið. Íslendingar gerðu full mörg mistök í varnarleiknum sem Rúmenar nýttu sér af fagmennsku. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Mörk Íslands: Robin Hedström, Emil Alengaard, Egill Þormóðsson.
Stoðsendingar: Jónas Breki Magnússon 2, Pétur Maack.
Maður leiksins hjá Íslandi: Egill Þormóðsson.
60. mín: LEIK LOKIÐ. Rúmenía sigraði 8:3. Rúmenar bættu við marki 10 sekúndum fyrir leikslok með glæsilegu skoti upp í markhornið af tæplega 20 metra færi og innsigluðu sigurinn.
56. mín: Staðan er 3:7 fyrir Rúmena sem voru ekki lengi að svara þessu áhlaupi Íslendinga. Dennis Hedström varði frá þeim en frákastið var Rúmena og þeir skoruðu í annari tilraun.
53. mín: Staðan er 3:6 fyrir Rúmeníu. Hinn 19 ára gamli Egill Þormóðsson minnkaði muninn með skoti af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Jónasi Breka Magnússyni. Önnur stoðsending Jónasar í leiknum. Íslendingar sýna góðan karakter og laga stöðuna eftir að hafa verið komnir 1:6 undir.
50. mín: Staðan er 2:6 fyrir Rúmeníu. Liðin sækja nú á víxl og hraðinn í leiknum hefur minnkað sem eðlilegt er. Lítil spenna í leiknum og bæði liðin spiluðu hörkuleiki í gær.
46. mín: Staðan er 2:6 fyrir Rúmeníu. Íslendingar hafa ekki lagt árar í bát og Emil Alengaard var að minnka muninn úr þröngu færi utan af hægri kanti eftir frábæra rispu Péturs Maack sem þræddi sig í gegnum miðja vörn Rúmena.
44. mín: Staðan er 1:6 fyrir Rúmeníu. Enn eitt markið í leiknum sem telst í ódýrari kantinum. Það skrifast á annars mjög góðan markvörð Íslands, Dennis Hedström sem missti undir sig fremur máttlítið skot utan af velli.
43. mín: Staðan er 1:5 fyrir Rúmeníu. Góð sókn Rúmena sem endaði með marki en í annað skiptið í leiknum telja Íslendingar að Rúmenar hafi skorað ólöglegt mark. Hvað svo sem um dómgæsluna má segja þá eru Rúmenar að sýna styrk sinn og eru númeri of stórir fyrir Ísland. Því miður.
40. mín: Staðan er 1:4 fyrir Rúmeníu að loknum tveimur leikhlutum. Rúmenar voru miklu sterkari í þessum leikhluta og Ísland þurfti að liggja í vörn á löngum kafla. Óskabyrjun Rúmena í leiknum tók algerlega af þeim pressuna og þeir virðast ætla að komast nokkuð vel frá þessum leik nema eitthvað óvænt gerist í síðasta leikhlutanum.
39. mín: Staðan er 1:4 fyrir Rúmeníu. Robin Hedström var að minnka muninn fyrir Ísland með góðu skoti eftir stoðsendingu frá Jónasi Breka Magnússyni. Íslendingar eru manni fleiri sem stendur og nýttu sér það vel í þetta skiptið.
38. mín: Staðan er 0:4 fyrir Rúmeníu. Íslendingar voru aðgangsharðir upp við mark Rúmena. Stimpingar urðu á milli leikmanna í kjölfarið og sauð hér um bil upp úr. Matthías Sigurðsson var sendur í kælingu sem og einn Rúmeninn.
32. mín: Staðan er 0:4 fyrir Rúmeníu sem sækir nú af miklum þunga og bætti við marki á 32. mínútu. Rúmenar eru að gera út um þennan leik þó enn sé tæpur hálftími eftir af leiktímanum.
30. mín: Staðan er 0:3 fyrir Rúmeníu. Þorsteinn Björnsson tapaði pökknum skammt frá marki Íslands. Fyrirgjöf kom fyrir mark Íslands í kjölfarið og Rúmenar skoruðu af stuttu færi. Heldur ódýrt mark en leikurinn hafði verið í ágætu jafnvægi í um 20 mínútur þó Rúmenar hafi verið heldur sterkari.
26. mín: Staðan er 0:2 fyrir Rúmeníu. Matthías Sigurðarson var í tvígang aðgangsharður upp við mark Rúmena á 30 sekúndna kafla. Í fyrra skiptið skaut Matthías af stuttu færi, varnarmaður Rúmena komst fyrir pökkinn sem skrúfaðist upp og lenti ofan á marki Rúmena.
24. mín: Staðan er 0:2 fyrir Rúmeníu. Arnþór Bjarnason fékk tveggja mínútna brottvísun í upphafi annars leikhluta en Íslendingum tókst að standa það af sér. Það rímar við leikinn í gær þar sem Íslandi gekk vel að verjast í þau fjölmörgu skipti sem liðið var manni færra á svellinu.
20. mín: Staðan er 0:2 fyrir Rúmeníu að loknum fyrsta leikhluta. Ísland pressaði talsvert í síðari hluta leikhlutans og sótti á löngum köflum en tókst þó ekki að skapa sér almennileg marktækifæri. Besta færi Íslands í leiknum fékk Arnþór Bjarnason eftir skyndisókn á 11. mínútu en náði ekki nægilega góðu skoti á markið. Íslensku leikmennirnir eru ekki nægilega hreyfanlegir og Rúmenum gengur ágætlega að verjast sóknarlotum Íslands enn sem komið er. Ef næsta mark verður íslenskt þá mun þá klárlega hleypa lífi í leikinn en Rúmenar geta andað rólega sem stendur.
15. mín: Staðan er 0:2 fyrir Rúmeníu. Leikurinn er í meira jafnvægi þessa stundina en þessi slæma byrjun íslenska liðsins gæti átt eftir að reynast dýr.
9. mín: Staðan er 0:2 fyrir Rúmeníu. Baráttuandinn sem einkenndi íslenska liðið í gær er víðsfjarri og Rúmenarnir ganga á lagið.
6. mín: Staðan er 0:1 fyrir Rúmeníu. Íslensku leikmennirnir eru brjálaðir út í dómarana og mótmæla kröftuglega, þá sérstaklega Snorri Sigurbjörnsson sem vildi meina að á sér hafi verið brotið. Snorri fær persónulega villu fyrir vikið og þarf að vera utan vallar í 10 mínútur en íslenska liðið getur þó sett annan leikmann inn og því er jafnt í liðum. En augljóslega slæm byrjun hjá Íslendingum.
3. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn og einn Rúmeninn var að næla sér í 2 mínútna brottvísun. Vonandi getur íslenska liðið fært sér það í nyt.
Rúmenar féllu úr 1. deild í fyrra og eiga því að vera með mun sterkara lið en Ísland.
Ísland sigraði Nýja Sjáland 3:1 með 2 mörkum frá Jónasi Breka Magnússyni og einu frá Ingvari Jónssyni í fyrsta leik liðsins í gær. Rúmenía sigraði Kína 4:3 eftir að hafa lent 0:3 undir.