Leikur Íslands og Kína í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí hófst í Jååhalla skautahöllinni í Narva í Eistlandi klukkan 13:30. Ísland sigraði 3:1 eftir gríðarlegan baráttuleik. Sigurinn var sanngjarn því Ísland skapaði sér mun fleiri marktækifæri og Kínverjar reyndu fyrst og fremst að hleypa leiknum upp í slagsmál. Þessi leikur skipti miklu máli fyrir framhaldið í riðlinum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Mörk Íslands: Jón B. Gíslason, Andri Mikaelsson og Emil Alengaard.
Stoðsendingar: Daniel Aedel, Pétur Maack og Ingvar Þór Jónsson.
Maður leiksins hjá Íslandi: Emil Alengaard.
60. mín: LEIK LOKIÐ. Sanngjarn íslenskur 3:1 sigur og fulltrúar risaveldisins sleikja sárin.
59. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Leikurinn er stopp og dómararnir ráða ráðum sínum eftir að upp úr sauð á milli Snorra og eins Kínverjans. Leikmenn beggja liða hafa fokið út af hvað eftir annað á undanförnum mínútum. Dómararnir virka kjarklausir og leita endalaust að salómonsdómum.
56. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Kínverjum tókst að nýta sér liðsmuninn og skora. Dennis var nánast búinn að verja skotið en missti pökkinn inn fyrir marklínuna. Sigurinn er ekki í höfn ennþá.
55. mín: Staðan er 3:0 og Ísland er aðeins 5 mínútum frá sínum öðrum sigri í mótinu. Snorri Sigurbjörnsson er utan vallar í kælingu og vonandi tekst Kínverjum ekki að notfæra sér það til þess að hleypa spennu í leikinn á ný.
49. mín: Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Hagur Íslendinga hefur heldur betur vænkast. Andri Mikaelsson skoraði á 46. mínútu eftir stoðsendingu frá Pétri Maack. Kínverjarnir létu mótlætið fara í taugarnar á sér og tveimur leikmönnum þeirra var vikið af velli í 2 mínútur með skömmu millibili. Íslendingar nýttu sér liðsmuninn af fagmennsku og Emil Alengaard þrumaði pökknum í netið hjá Kína á 49. mínútu eftir sendingu frá Ingvari fyrirliða Jónssyni.
45. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Harkan heldur áfram og Íslendingar voru í smá stund tveimur leikmönnum færri. Til allrar hamingju lét einn Kínverjinn reka sig út af í kjölfarið og Íslendingar náðu að verjast án þess að Kínverjar sköpuðu sér almennilegt færi.
40. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland að loknum tveimur leikhlutum. Jón B. Gíslason skoraði markið á 39. mínútu. Löng bið á enda hjá Íslendingum sem hafa skapað sér fjölda marktækifæra í leiknum og þegar búið að dæma eitt mark af Jóni. Daniel Aedel gaf pökkinn á Jón sem var úti á hægri kanti og nýtti sprengikraftinn til þess að koma sér fram hjá tveimur varnarmönnum og í skotfæri. Markvörðurinn var í pökknum en hann lak inn fyrir línuna og íslensku leikmennirnir fögnuðu gríðarlega.
34. mín: Staðan er 0:0. Nú er heldur betur farið að hitna í kolunum. Kínverjarnir eru orðnir pirraðir eins og við var að búast. Það lá við slagsmálum á 32. mínútu en dómararnir ráku einn úr hvoru liði út af í 2 mínútur. Á 30. mínútu skoraði Jón B. Gíslason að því er virtist löglegt mark eftir undirbúning Emils en dómararnir dæmdu markið af og töldu að markið hefði færst úr stað áður en pökkurinn fór yfir marklínuna.
26. mín: Staðan er 0:0. Arnþór Bjarnason var sendur í kælingu í upphafi leikhlutans en Kínverjar náðu ekki að setja Íslendinga undir teljandi pressu. Allt galopið í þessum leik eins og kannski við var að búast.
20. mín: Staðan er 0:0 að loknum fyrsta leikhluta. Taugaveiklunin gerði vart við sig hjá íslensku leikmönnunum á fyrstu 10 mínútunum eins og við var að búast. Vörnin stóð hins vegar af sér sóknir Kínverjana og leikurinn hefur að mestu farið fram á vallarhelmingi Kína síðustu 10 mínúturnar. Jón B. Gíslason hefur átt tvær ágætar skottilraunir, Ingvar og Emil einnig. Þessi leikur verður vafalaust jafn og spennandi eins og hjá þessum þjóðum í síðustu tveimur keppnum.
15. mín: Staðan er 0:0. Fyrirliði Kína hefur verið rekinn í sturtu og kemur ekki meira við sögu í leiknum. Kínverjar voru auk þess með mann í kælingu í 5 mínútur vegna þessa. Tilefnið var ærið því Kínverjinn rak kylfuna í andlit aldursforsetans Sigurðar Sveins Sigurðssonar svo blæddi úr nefi Sigurðar. Hann mun þó væntanlega jafna sig og koma aftur inn á því Sigurður þyrfti alla vega að missa útlim til þess að hætta keppni. Ísland náði ekki að nýta sér liðsmuninn en Emil átti frábæra rispu á 14. mínútu en markvörður Kína náði að verja frá honum. Jónas Breki Magnússon fékk einnig 2 mínútna brottvísun á þessum kafla fyrir að láta markvörð Kínverja finna full mikið fyrir sér.
9. mín: Staðan er 0:0. Hraðinn í leiknum er gífurlegur þessa stundina. Dennis varði tvívegis glæsilega í sömu sókninni á 6. mínútu þegar Kínverjar fengu dauðafæri eftir varnarmistök Íslendinga. Emil Alengaard lagði upp ágætt færi fyrir Ingvar Þór Jónsson á 8. mínútu en honum tókst ekki að færa sér það í nyt.
5. mín: Staðan er 0:0. Nokkuð hefur legið á Íslendingum á fyrstu mínútunum meðal annars vegna þess að Andri Mikaelsson fékk 2 mínútna brottvísun. Íslenska vörnin komst hins vegar vel frá sínu en Dennis Hedström bjargaði einu sinni vel í marki Íslands.
Nú eru tæplega 25 mínútur þar til að risaveldin tvö, Ísland og Kínverska alþýðuveldið takast á í skautahöllinni í Narva. Leikmenn liðanna eru á fullu að hita upp. Íslensku strákarnir fóru raunar út í góða veðrið áðan og hituðu upp í fótbolta, eldri á móti yngri að sjálfsögðu. Við hliðina á skautahöllinni er grasvöllur en vor er í lofti í Narva, sól og tæplega 10 stiga hiti. Það hefur vonandi haft góð áhrif á spennustigið því Íslendingarnir þurfa að vinna leikinn til þess að ná markmiði sínu og bæta besta árangur sinn á HM.
Allir leikmenn íslenska liðsins eru heilir heilsu og klárir í slaginn. Stemningin í hópnum er afar góð og menn eru mjög einbeittir fyrir þetta verkefni enda getur það ráðist úrslitum í kapphlaupinu um bronsverðlaun í riðlinum. Þjálfararnir Richard og Johan tóku hvern og einn leikmann á fund í gærkvöldi til þess að ræða málin fyrir utan hefðbundinn undirbúning eins og videófundi og æfingar á ísnum.