Eyjólfur samdi við SönderjyskE

Eyjólfur Héðinsson í leik með Fylki fyrir nokkrum árum.
Eyjólfur Héðinsson í leik með Fylki fyrir nokkrum árum. mbl.is/Kristinn

Knattspyrnumaðurinn Eyjólfur Héðinsson, sem hefur leikið með GAIS í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin fjögur ár, samdi í dag við danska úrvalsdeildarfélagið SönderjyskE en þetta var staðfest á  vef þess í dag.

Eyjólfur, sem varð 26 ára á nýársdag, fór til GAIS frá Fylki í ársbyrjun 2007 og á að baki nákvæmlega 100 leiki með Gautaborgarliðinu í sænsku úrvalsdeildinni en hann gerði í þeim 12 mörk. Eyjólfur hefur leikið 4 A-landsleiki fyrir Ísland og samtals 19 leiki með yngri landsliðunum.

„Eyjólfur er með góðar sendingar og duglegur í að vinna boltann. Þá er hann með mikla hlaupagetu og spilar af miklum krafti. Hann er góður skallamaður og er leikmaður sem kemur sér í færi í vítateignum," segir Ole Nielsen íþróttastjóri SönderjyskE á félagsins.

„Við höfum samið við Eyjólf til sumarsins 2013 og höfum með því komið meira jafnvægi á miðjuna hjá liðinu," sagði Nielsen ennfremur.

Þar með eru þrír íslenskir leikmenn með SönderjyskE. Ólafur Ingi Skúlason er fyrirliði liðsins, en hann kom þangað í desember 2009 frá Helsingborg í Svíþjóð, og þá er Arnar Darri Pétursson, hinn 19 ára  gamli markvörður 21-árs landsliðsins, varamarkvörður SönderjyskE og kom þangað frá Lyn í Noregi síðasta sumar. Sölvi Geir Ottesen var hinsvegar seldur frá félaginu til FC Köbenhavn síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka