Ísland sigraði Kína annað árið í röð

Egill Þormóðsson er markahæstur Íslendinga á HM.
Egill Þormóðsson er markahæstur Íslendinga á HM. mbl.is/Kristján Maack

Ísland og Kína áttust við í 2. deild heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Spartova-höllinni í Zagreb klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Íslendingar sigruðu 5:3 eftir fjörugan leik en Ísland vann Kína í fyrsta skipti í íshokkí á HM í Eistlandi í fyrra. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Mörk Íslands: Egill Þormóðsson 2, Úlfar Andrésson, Andri Mikaelsson, Jón Benedikt Gíslason.

Stoðsendingar: Emil Alengård 2, Jón Benedikt Gíslason, Sigurður Sveinn Sigurðsson, Robin Hedström.

Maður leiksins hjá Íslandi: Egill Þormóðsson.

60. mín: Leik lokið. Ísland sigraði 5:3 og Íslensku leikmennirnir fagna innilega enda fremur grunnt á því góða á milli þessara liða.  Nú á Ísland alla möguleika á því að vinna til bronsverðlauna annað árið í röð en liðið mætir Írlandi á sama tíma á morgun.

58. mín: Staðan er 5:3 fyrir Ísland og síðustu tvær mínúturnar fór leikurinn fram á vallarhelmingi Kína því Kínverjar voru með mann í refsingu. Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.

54. mín: Mark! Staðan er 5:3 fyrir Ísland og vænkast nú aftur hagur okkar manna. Robin Hedström komst einn á móti markverði Kína en brenndi af en Jón Benedikt Gíslason fékk frákastið og tókst að koma pökknum í markið úr þröngu færi. 

52. mín: Staðan er 4:3 fyrir Ísland. Leikmenn Íslands eru að hressast á nýjan leik og Jón B. Gíslason átti rétt í þessu skot í þverslána á marki Kína eftir góða rispu.

50. mín: Staðan er 4:3 fyrir Ísland. Kínverjar náðu nú góðu áhlaupi en Dennis Hedström varði frábærlega í þrígang í íslenska markinu. Tíu mínútur til stefnu.

44. mín: Staðan er 4:3 fyrir Ísland og Brynjar Þórðarson var að fá tveggja mínútna brottvísun. Kínverjar fá nú gott tækifæri til að jafna leikinn í þriðja skipti. 

41. mín: Mark! Staðan er 4:3 fyrir Ísland. Ekki byrjaði síðasti leikhlutinn gæfulega fyrir Ísland. Kínverjar fengu skyndisókn og útfærðu hana vel og skoruðu laglegt mark. Þetta ætti að blása lífi í sigurvonir Kínverja.

40. mín: Staðan er 4:2 fyrir Ísland að loknum öðrum leikhluta. Útlitið er gott en leikurinn á móti Rúmeníu kennir okkur að ýmislegt getur farið úrskeiðis í þriðja leikhluta ef menn halda ekki einbeitingu eða þá ef þreyta sækir menn heim. 

39. mín: Mark! Staðan er 4:2 fyrir Ísland. Markahrókurinn Egill Þormóðsson svaraði kallinu úr blaðamannastúkunni og skoraði fjórða markið af stuttu færi eftir stoðsendingu Emils Alengård. Fjórða mark Egils í keppninni og einnig fjórða stoðsending Emils.

38. mín: Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Nú eru Kínverjarnir heldur betur orðnir pirraðir því þeir misstu tvo menn af svelli í sömu sókninni. Ísland mun ekki fá betra færi en þetta til að bæta við fjórða markinu. 

36. mín: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Kínverjar misstu mann af svelli og Íslendingar nýttu sér það. Brynjar Þórðarson kom pökknum á Jón Benedikt Gíslason sagði lagði upp mark fyrir Andra Mikaelsson á glæsilegan hátt. Íslendingar hafa tekið forystuna í þriðja skiptið í leiknum. Nú heimta ég að næsta mark verði íslenskt en ekki kínverskt.

30. mín: Mark! Staðan er 2:2. Kínverjar fengu nokkur tækifæri á meðan þeir voru tveimur fleiri og tókst að nýta eitt þeirra. Liðin eru því aftur komin á byrjunarreit.

29. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Nú er það svart. Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson fékk brottvísun og aldursforsetinn Sigurður Sigurðsson fylgdi í kjölfarið um mínútu síðar.  Kínverjar eru því 5 á móti 3 í eina mínútu.

26. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Aðdragandinn var sá að annar Kínverji fékk brottvísun og Íslendingar voru því 5 á móti 3 í eina mínútu en  fóru illa að ráði sínu nýttu það ekki. Egill Þormóðsson fékk besta færið en lét verja frá sér. Egill bætti það hins vegar upp rétt eftir að Kína fékk fyrri manninn sinn á ísinn og laumaði pökknum undir markvörðinn og í netið eftir stoðsendingu frá Emil Alengård.

24. mín: Staðan er 1:1. Birkir Árnason fékk tveggja mínútna brottvísun strax í upphafi leikhlutans en það kom ekki að sök.  Nú voru Kínverjar hins vegar að fá brottvísun og nú reynir á „power play" íslenska liðsins. 

20. mín: Staðan er 1:1 að loknum fyrsta leikhluta. Kínverjar héldu áfram mikilli pressu á lokamínútum hálfleiksins en Íslendingum tókst að ráða við hana.  Heilt yfir er staðan sanngjörn miðað við gang leiksins.

17. mín: Mark! Staðan er 1:1. Kínverjar voru ekki lengi að jafna leikinn. Tveimur mönnum, einum úr hvoru liði var vikið af svelli í tvær mínútur, Ólafi Hrafni Björnssyni hjá Íslendingum. Kínverjar náðu skoti úr góðu færi sem Dennis Hedström varði en kínverskur sóknarmaður fékk frákastið og þurfti bara að setja pökkinn óáreittur í netið.  Á milli markanna var Brynjar Þórðarson tvívegis aðgangsharður upp við mark Kínverja en þeim tókst að sjá við honum. 

14. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Sigurður Sigurðsson hafði betur í baráttunni um lausan pökk og lagði hann fyrir Úlfar Andrésson sem þrumaði pökknum upp í þaknetið. Snyrtileg afgreiðsla hjá Úlfari sem leikið hefur vel í mótinu. Mínútu áður hafði Ísland fengið vænlega skyndisókn þar sem Emil lagði upp dauðafæri fyrir Egil Þormóðsson en Agli tókst ekki að klára færið í fyrstu snertingu og Kínverjar björguðu málunum. 

12. mín: Staðan er 0:0. Ísland fékk ekkert verulega gott marktækifæri á meðan liðið var manni fleira. 

9. mín: Staðan er 0:0. Kínverjar voru að fá fyrstu brottvísun leiksins og vonandi ná Íslendingar að nýta sér það. Skömmu áður komst Emil Alengård í gott skotfæri en þrumaði pökknum yfir markið.

5. mín: Staðan er 0:0. Íslendingar reyna að keyra upp hraðann á fyrstu mínútunum og skipta mjög ört inn á. Hvorugu liðinu hefur tekist að skapa sér dauðafæri en Jón B. Gíslason hefur átt eina almennilega markskot íslenska liðsins en það var af fremur löngu færi og fór beint á kínverska markvörðinn.

Leikurinn gegn Kína er mikilvægur og hálfgerður úrslitaleikur um 3. sætið í riðlinum. Kína á eftir að spila við Búlgaríu á morgun og Ísland á eftir að spila við Írland. Miðað við úrslitin til þessa þá er mjög líklegt að bæði þessi lið vinni sína leiki á morgun og því sé þessi leikur úrslitaleikur um bronsið. Hjá veðbönkum í Zagreb er Ísland líklegra til að vinna með stuðulinn 1,90 en Kína er með stuðulinn 2,70.

Annað sem eykur á mikilvægi leiksins er sú að staðreynd að fyrir næsta þingi alþjóða íshokkísambandsins stendur til að breyta fyrirkomulaginu á deildunum. Áfram verða tveir sex liða riðlar í hverri deild en þeim verður hins vegar skipt upp í A og B eftir styrkleika. Verði tillagan samþykkt mun liðið í 3. sæti hér í Zagreb verða í betri riðlinum á næsta ári en liðið í 4. sæti verður í slakari riðlinum. Leikurinn í dag gæti því verið úrslitaleikur um að vera í betri riðlinum á næsta ári og keppa um sæti í 1. deild að ári, að því gefnu að tillagan muni ná fram að ganga. 

Úlfar Andrésson og Daniel Aedel.
Úlfar Andrésson og Daniel Aedel. mbl.is/Kristján Maack
Jón Benedikt Gíslason lagði upp mark fyrir Andra Mikaelsson.
Jón Benedikt Gíslason lagði upp mark fyrir Andra Mikaelsson. mbl.is/Kristján Maack
Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína.
Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína. mbl.is/Kristján Maack
Ingvar Þór Jónsson fyrirliði Íslands.
Ingvar Þór Jónsson fyrirliði Íslands. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka