Dóra María með þrennu í risasigri

Dóra María Lárusdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir eru samherjar hjá …
Dóra María Lárusdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir eru samherjar hjá Vitoria. Ljósmynd/Algarvephotopress

Dóra María Lárusdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði þrennu á páskadag þegar lið hennar, Vitoria, hóf úrslitakeppnina um meistaratitil Pernambucano-fylkis í Brasilíu með sannkallaðri flugeldasýningu.

Vitoria, sem vann sinn riðil í deildakeppninni, mætti Codif, sem varð í fjórða sæti í hinum riðlinum, í átta liða úrslitum en þetta var fyrri leikurinn, á heimavelli Codif. Heimaliðið átti ekki minnstu möguleika gegn Vitoria sem vann leikinn með hvorki meira né minna en 24:0. Liðin mætast síðan á heimavelli Vitoria um næstu helgi og nokkuð ljóst er hvort þeirra fer í undanúrslitin!

Íslensku landsliðskonurnar Dóra María og Þórunn Helga Jónsdóttir léku báðar með Vitoria í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert