Fréttaskýring: Íþróttakonur sigrast á fordómum

Tahmina Kohistani sló persónulegt met sitt í 100 metra hlaupi …
Tahmina Kohistani sló persónulegt met sitt í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í dag. AFP

„Ég æfi í Kabúl, en aðstæður eru erfiðar því á hverri æfingu reynir fólk að hindra mig,“ segir Tahmina Kohistani, eina konan í ólympíuliði Afganistans. Í dag kepptu líka í fyrsta sinn í sögunni konur frá Sádi-Arabíu og Brúnei.

Jafnréttisbarátta kvenna á Ólympíuleikunum hefur verið löng og ströng, en leikarnir í London í ár eru þeir fyrstu þar sem allar þátttökuþjóðir senda kvenkyns keppendur og jafnframt þeir fyrstu þar sem konur keppa í öllum greinum.

Margir á móti því að konur stundi íþróttir

Kohistani sló persónulegt met sitt í 100 metra spretthlaupi á Ólympíuleikunum í London. Engu að síður var hún síðust í mark, hálfri sekúndu á eftir næstu konu, og er þar með dottin úr keppni en hún er alsæl með árangurinn enda þurfti hún að sigrast á miklum fordómum og andstöðu til að ná þessum áfanga. Hún segist vonast til að verða kynsystrum sínum fyrirmynd þannig að fleiri konur keppi fyrir hönd Afganistans að fjórum árum liðnum. 

„Ég er með mikilvæg skilaboð fyrir afganskar konur: Komið og sláist í lið með mér, því ég er ein og þarf á stuðningi ykkar að halda.“ Æfingaaðstaðan í hinu stríðshrjáða landi er bágborin og margir eru á móti því að konur stundi íþróttir. Ólympíuleikarnir í Aþenu 2004 voru þeir fyrstu þar sem Afganistan sendi konur, og er Kohistani fimmti kvenkyns keppandi landsins, sem var alræmt fyrir kúgun kvenna í stjórnartíð talíbana. 

Tvö lönd senda í fyrsta skipti konur

Kohistani lýsti erfiðleikunum sem hún mætti í viðtali við blaðamann AFP eftir keppnina í dag. Sagði hún marga hafa þrýst á sig að hætta við þátttöku og eitt sinn hefði leigubílstjóri vísað henni út úr bíl sínum þegar hún sagði honum að hún væri á leið á íþróttaæfingu til að þjálfa sig fyrir Ólympíuleikana.

Leikarnir í ár eru þeir fyrstu þar sem allar aðildarþjóðir Alþjóðaólympíunefndarinnar IOC senda keppendur af báðum kynjum og var dagurinn í dag sögulegur fyrir þær sakir að tvö ríki áttu í fyrsta skipti kvenkyns fulltrúa í ólympíukeppni. Hin 16 ára gamla Wojdan Shaherkani keppti í júdó fyrir Sádi-Arabíu og Maziah Mahusin í 400 metra grindahlaupi fyrir Brúnei.

Báðar duttu þær úr leik í dag en lýstu yfir ánægju sinni í fjölmiðlum með sögulega þátttöku. „Ég hef fengið fjöldann allan af sms-skilaboðum frá stelpum heima sem segjast vilja verða eins og ég. Þær vilja líka keppa á Ólympíuleikunum einhvern daginn. Þetta er mikill heiður fyrir mig,“ hefur AFP eftir Mahusin, sem bætti því við að hún ætli að æfa af kappi fyrir Rio de Janeiro 2016 og stefni á að komast á verðlaunapall þá. 

Skotfimi, lyftingar og box langlífustu karlagreinarnar

Konum var ekki heimiluð þátttaka á Ólympíuleikunum á Grikklandi til forna, nema óbeint sem eigendur keppnishesta og eru til nokkrar heimildir um konur sem áttu hesta sem riðið var til sigurs af karlkyns knöpum. Engar konur tóku heldur þátt í fyrstu Ólympíuleikum nútímans þegar þeir voru endurvaktir árið 1896. Þeim var í fyrsta skipti heimiluð þátttaka árið 1900 í París, en eingöngu í tennis og golfi. Árið 1928 bættust við frjálsíþróttir og fimleikar og þannig fjölgaði smám saman greinum þar sem konur kepptu.

Sumar íþróttir voru þó langlífari sem karlagreinar en aðrar. T.d. var konum í fyrsta skipti leyft að keppa í hlaupum árið 1928, en í lok 800 metra hlaupsins leið yfir svo marga keppendur að þátttaka kvenna var bönnuð í greininni fram til 1960. Skotfimi var karlasport fram til 1984 og konum var ekki leyft að keppa í maraþoni fyrr en á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984, m.a. með þeim rökum að það væri slæmt fyrir heilsu þeirra.

Það var ekki fyrr en 2000 sem fyrstu lyftingakonurnar mættu á Ólympíuleikana og í ár taka konur í fyrsta sinn í sögunni þátt í öllum greinum leikanna, því kvennaflokkur í ólympískum hnefaleikum hefur nú verið tekinn upp og fer fyrsti leikurinn fram á sunnudag.

Júdókonan Wojdan Shaherkani keppti á Ólympíuleikunum í dag, fyrst kvenna …
Júdókonan Wojdan Shaherkani keppti á Ólympíuleikunum í dag, fyrst kvenna frá Sádi-Arabíu. AFP
Hlaupakonan Maziah Mahusin var fánaberi Brúnei á setningarathöfn Ólympíuleikanna.
Hlaupakonan Maziah Mahusin var fánaberi Brúnei á setningarathöfn Ólympíuleikanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert