„Þetta var mikið áfall, því hann er góður íþróttamaður. Ég vona að þetta sé ekki satt, vona það besta,“ sagði einn aðdáanda hjólreiðakappans Lance Armstrongs þegar hann var spurður út í niðurstöðu bandaríska lyfjaeftirlitsins sem ætlar að dæma hann í lífstíðarbann vegna notkunar ólöglegra efna.
Armstrong hefur ávallt neitað því að hafa notast við ólögleg efni en hann ákvað í gær að hætta að berjast gegn ásökunum gegn sér sem þýðir að hann var dæmdur í lífstíðarbann.
Fréttamaður AFP-fréttaveitunnar fór á stúfana og ræddi við fólk á förnum vegi um niðurstöðu lyfjaeftirlitsins. Einn þeirra sagði þetta hræðilegar fréttir og annar að þó svo það kæmi í ljós að Armstrong hefði ekki notað ólögleg lyf myndi þetta ávallt setja ljótan blett á feril hans.