Nike, einn helsti styrktaraðili hjólreiðamannsins Lance Armstrong, hefur slitið samstarfi við hann í kjölfar umfangsmikils lyfjamisferlis.
Bandaríska lyfjaeftirlitið gaf á dögunum út skýrslu þar sem upplýst var um lyfjamisnotkun Armstrongs og fleiri íþróttamanna. Er Armstrong að mati eftirlitsins talinn hafa verið potturinn og pannan í svindlinu.
Nike hefur hingað til staðið með Armstrong en í dag var upplýst að fyrirtækið hefði slitið samningi sínum við hjólreiðamanninn.
Segir í yfirlýsingu frá Nike að sönnunargögn bendi öll til þess að Armstrong hafi tekið þátt í lyfjamisferli og misnotað Nike í yfir áratug. Þar kemur ennfremur fram að Nike fordæmi notkun ólöglegra lyfja í íþróttum.
Fyrr í dag tilkynnti Armstrong að hann væri hættur sem stjórnarformaður góðgerðarsamtaka sinna, Livestrong, sem m.a. safna fé til krabbameinsrannsókna.