Armstrong: Hef átt erfitt

Bandaríski hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong segist hafa átt erfitt að undanförnu en fyrir nokkrum vikum ásakaði lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hann um að hafa tekið þátt í umfangsmiklu lyfjahneyksli. Armstrong hefur nú tjáð sig í fyrsta sinn síðan hin ítarlega skýrsla lyfjaeftirlitins kom út. Það gerði hann í Texas á uppákomu vegna 15 ára afmælis Livestrong, góðgerðarsamtaka sem hann stofnaði.

Armstrong segist saklaus og hann hvatti sjálfboðaliða og starfsmenn samtakanna til að halda áfram starfinu en hann hefur stigið til hliðar sem stjórnarformaður.

Skýrsla lyfjaeftirlitins er 1.000 síður og í henni kemur m.a. fram að Armstrong hafi nær allan sinn feril notað ólögleg lyf til að hámarka árangur sinn. Það hafi hann gert í félagi við aðra og telur stofnunin að Armstrong hafi verið höfuðpaurinn í því sem kallað hefur verið „lyfjahringurinn“.

Lögmaður Armstrongs segir skýrsluna ómerkilegt plagg, fullt af lygum.

„Þetta hafa verið erfiðar vikur fyrir mig, fyrir fjölskyldu mína, fyrir vini mína og fyrir þessa stofnun,“ sagði Armstrong við athöfnina í Austin, heimabæ sínum, í gær. „Mér hefur liðið betur, en líka verr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert