Alþjóða ólympíunefndin, IOC, hefur til skoðunar hvort Bandaríkjamaðurinn Lance Armstrong verður sviptur bronsverðlaunum sem hann vann í hjólreiðakeppni Ólympíuleikanna í Sydney fyrir 12 árum.
Nýverið komst upp um stórkostlega og skipulagða ólöglega lyfjanotkun Armstrongs sem stóð yfir árum saman. Í framhaldinu var allur árangur hans í Frakklandshjólreiðunum strikaður út en hann vann þá keppni sex ár í röð. Nafn hans hefur og verið strikaður út auk þess sem stuðningsaðilar hans og hjólreiðaliðs hans hafa slitið samstarfi.
Alþjóða ólympíunefndin mun á næstunni fara yfir 1000 blaðsíðna skýrslu sem nýverið kom út vegna skipulagðrar lyfjanotkunar Armstrong. Komi eitthvað fram þar sem sannar að Armstrong hafi haft rangt við þegar hann tók þátt í Ólympíuleikunum í Sydney verður nafn hans strikað út af skrá yfir verðlaunahafa á Ólympíuleikum og Armstrong gert að skila bronsverðlaununum. Hafi Armstrong farið í lyfjapróf á leikunum er hugsanlegt að það sé til enn og verði rannsakað á nýjan leik.