10.600 keppendur frá 205 löndum. 80 þúsund áhorfendur. 15 þúsund sjálfboðaliðar og mörg hundruð starfsmenn. Óviðjafnanleg setningarathöfn sem kostaði yfir 5 milljarða króna. Á hana horfði heill milljarður manna. Ólympíuleikarnir í London sumarið 2012 voru einstakt sjónarspil frá upphafi til enda.
Ólympíuleikarnir í London voru sérstakir að mörgu leyti.
Jafnréttisbarátta kvenna á Ólympíuleikunum hefur verið löng og ströng, en leikarnir í London í ár voru þeir fyrstu þar sem allar þátttökuþjóðir sendu kvenkyns keppendur og jafnframt þeir fyrstu þar sem konur kepptu í öllum greinum.
Sett voru 32 heimsmet í átta greinum. Bandaríkjamenn hlutu flesta verðlaunapeninga, samtals 104. Þeir unnu til 46 gullverðlauna, 29 silfurverðlauna og 29 bronsverðlauna. Kínverjar komu þar á eftir með 88 verðlaun í heildina, þar af 38 gullverðlaun. Gestgjafarnir, Bretar, unnu svo til 65 verðlauna, þar af 29 gullverðlauna.
Opnunarhátíðin vakti mikla athygli þar sem drottningin Elísabet og James Bond voru m.a. í stórum hlutverkum.
Lokahátíðin var ekki síður glæsileg. Tónlistin tók þar öll völd og komu Kryddpíurnar vinsælu m.a. fram.
Með því að smella á renninginn hér að ofan má sjá fjörlega myndasyrpu frá þessum óviðjafnanlegu Ólympíuleikum.