Einar nýr formaður SKÍ

Einar Þór Bjarnason.
Einar Þór Bjarnason.

Einar Þór Bjarnason var kjörinn nýr formaður Skíðasambands Íslands á ársþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri dagana 24.-25. maí.

Einar hefur lengi verið viðloðandi íþróttina bæði sem keppandi á yngri árum, þjálfari og nú hin síðari ár sem nefndarmaður í alpagreinanefnd sambandsins. Í vor hlaut hann réttindi alþjóðlegs dómara í alpagreinum, eins og segir í tilkynningu frá SKÍ.

Á þinginu var KR-ingurinn Þórir Jónsson, einn af fyrstu Ólympíuförum Íslendinga, sæmdur heiðursstjörnu Skíðasambands Íslands fyrir langt, ötult og óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar. Þórir keppti á vetrarólympíuleikunum í St. Moritz í Sviss árið 1948 og er enn á fullri ferð í skíðabrekkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert