Aníta Hinriksdóttir, Íslandsmethafi í 800 m hlaupi kvenna, kom langfyrst í mark í fyrri undanúrslitariðlinum á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri sem hlaupinn var nú rétt í þessu.
Ungstirnið úr ÍR tók því rólega og kom í mark á 2.02:44 sem er tæpum tveimur sekúndum frá Íslandsmeti hennar. Hún eyddi því ekki of mikilli orku sem er gott.
Aníta stakk keppinauta sína af eftir 600 metra og á nóg inni fyrir úrslitahlaupið á sunnudaginn þar sem Ísland getur eignast sinn fyrsta heimsmeistara í frjálsíþróttum.