„Aðalmálið var að vinna gullið en síðan varð það ágætt að slá mótsmetið í kaupbæti," sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, sem varð fyrr í dag heimsmeistari í 800 m hlaupi 17 ára og yngri á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum sem stendur nú yfir í Donetsk í Úkraínu.
„Allar æfingar okkar síðustu tvö árin hafa miðast við þetta mót og því er hreint stórkostlegt þegar maður sér uppskeru erfiðis. Þegar á hólminn var komið má segja að Aníta hafi verið tilbúin að mæta hverjum sem er. Aníta var í toppformi þegar mestu máli skipti," sagði Gunnar Páll þegar mbl.is náði í hann í stutta stund þar sem hann var á þönum eftir hlaupið.
„Planið hjá okkur gekk fullkomlega upp. Ég var búinn að brýna fyrir Anítu að fara ekkert á taugum þótt andstæðingarnir reyndu að keyra upp hraðann í byrjun hlaupsins. Áætlun Anítu var að taka afgerandi af skarið á þriðju tvö hundruð metrunum en gæta þess sem samt að eiga nægan kraft fyrir síðustu tvö hundruð metrana. Segja má að hún hafi losað sig við andstæðinganna á þriðju tvö hundruð metrum hlaupsins.
Það má segja að áætlun okkar hafi gengið fullkomlega upp," sagði Gunnar Páll og bætti við.
„Ég vissi það að ef hlaupið yrði hratt og „upp á hennar hraða“ framan af þá myndu stelpurnar aldrei vinna Anítu. Eina sem ég óttaðist var að hlaupið yrði óþægilega hægt og Aníta myndi ekki fatta það en til þess kom ekki.
Aníta var bara langsterkust, það var ekkert flóknara," sagði Gunnar Páll.
Spurður hvernig þjálfaranum hafi liðið fyrir hlaupið og á meðan því stóð svaraði Gunnar: „Ég var alla tíð bjartsýnn. Ég sá það bara á Anítu strax í upphitunni að hún væri algjörlega tilbúin í þetta hlaup."
Um 30 stiga hiti og sólskin er í Donetsk. „Það er bara mjög fínt að hlaupa 800 metra við þessar aðstæður þótt þær séu vissulega aðrar en þær sem við eigum að venjast. Fyrst og fremst þurftum við að gæta að atriðum í upphituninni, það er að hún drykki nóg af vatni og reyndi að halda sig sem mest í skugga. En þegar út í hlaupið var komið voru aðstæður frábærar fyrir 800 metra hlaup.
Næst á dagskrá hjá Anítu er verðlaunaafhending og síðan tekur við lyfjapróf.