„Það var erfitt að sofa í nótt. Mér líður mjög illa eftir þetta,“ sagði Srdjan Rajkovic, markvörður Þórs, sem átti skelfilegan leik gegn ÍBV í Pepsi-deildinni í gær og bar sök á fyrstu tveimur mörkum ÍBV í 3:1 sigri Eyjamanna.
Í fyrsta markinu missti Rajko, eins og hann er kallaður, af sendingu frá Hlyni Atla Magnússyni, og í því næsta missti hann boltann hreinlega inn í markið. Rajko hefur spilað á Íslandi frá árinu 1999 og segist aldrei hafa upplifað annað eins.
„Það er alveg óskiljanlegt hvernig þetta gerist. Í fyrsta markinu fékk ég boltann til baka frá Hlyni Atla. Það var ekkert erfitt en boltinn var á lofti í staðinn fyrir að koma meðfram jörðinni. Ég ætlaði að taka hann með kassanum en boltinn skoppaði illa fyrir framan mig og fór einhvern veginn framhjá mér. Ég skil ekkert í þessu. Þetta er algjört grín,“ sagði Rajko.
„Það sem var klaufalegast var að ég skyldi missa boltann í markið en ekki fram fyrir mig. Ég var mjög óheppinn að missa hann svona en það er ekkert hægt að gera í því núna. Það er mjög erfitt að útskýra þetta. Ég skil ekki sjálfur hvað gerðist. Það er allt í lagi að svona gerist kannski hjá ungum og reynslulausum markverði, en að þetta gerist á þessum aldri hjá mér er mjög skrýtið,“ bætti hann við.
„Mesta rugl í heiminum“
Mikil umræða hefur verið á samskiptavefnum Twitter um mistök Rajko þar sem sumir hafa gengið svo langt að bendla hann við veðmálasvindl.
„Ég er orðlaus. Ég er búinn að sjá þetta allt á Twitter og þetta er mesta rugl í heiminum. Ef maður ætlaði að gera eitthvað svona færi maður ekki þessa leið. Ég er mjög pirraður yfir þessu en ég er með breitt bak. Ég skil samt alveg fólk. Þegar manni gengur illa er drullað yfir mann. Þannig er fótboltinn,“ sagði Rajko.
„Vonandi kem ég bara sterkur til baka. Þetta er erfitt en það er ekkert við þessu að gera. Ég verð bara að koma til baka og leiðrétta þetta,“ bætti hann við.