Eyleifur: Danir vinna skipulega og markvisst

„Það er ekki mikill munur á að þjálfa í Danmörku eða Íslandi. Félögin æfa í almenningssundlaugum. Sundkennslan fer hinsvegar að mestu fram í félögum sem eru fyrir vikið mikið fjölmennari en félögin hér heima og hafa því meira umleikis af peningum sem meðal annars er hægt að nýta í afreksstarf,“ segir Eyleifur Jóhannsson, yfirþjálfari hjá Alaborg svömmeklub og sundþjálfari ársins í Danmörku 2013.


Eyleifur hefur unnið hjá Aalborg svömmeklub frá árinu 2007 en þá hafði hann þjálfað hjá KR, ÍA og Ægi hér heima í meira en áratug. Hann langaði að takast á við nýjar áskoranir í þjálfuninni og söðlaði því um og fluttist með fjölskyldu sinni til Álaborgar.
Eyleifur hefur á þessum tíma bylt starfinu hjá Aalborg svömmeklub. Nú er það fremsta sundfélag Danmerkur með 2.400 félagsmenn og 65 þjálfara og leiðbeinendur, þar af 15 þjálfara í afreksstarfinu.

„Sund er skyldugrein í grunnskólum í Danmörku og víða sjá félögin um að kenna börnum og fullorðnum sund. Grunnur afrekssundfólks er því ólíkur þeim sem við þekkjum hér heima þar sem sundkennsla í skólum er mjög góð,“ segir Eyleifur sem var hér á landi á dögunum í 10 daga æfingabúðum með afrekshópi félagsins í Álaborg.

Eyleifur segir félöginí Danmörku vera afar skipulögð. „Sumir segja að Danir séu ferkantaðir en þeir vinna mjög skipulega og markvisst að öllum hlutum. Við hugsum langt fram í tímann og skipuleggjum starfið eitt til tvö ár fram í tímann. Í Danmörku er ekki unnið á síðustu stundu eins og stundum vill brenna við hér heima,“ segir Eyleifur.

Nánar er rætt við Eyleif á meðfylgjandi myndskeiði. Einnig verður ýtarlegt viðtal við hann í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert