Bandaríski hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong segist ætla að vera „100% hreinskilinn“ héðan í frá þegar kemur að rannsókn á lyfjanotkun hans. Hann vill þó að tryggt verði að drengilega verði komið fram við hann. Þetta kom m.a. fram í viðtali við Armstrong á BBC. Armstrong játaði í janúar á þessu ári að hann hefið tekið lyf til að bæta frammistöðu sína í öllum þeim sjö keppnum Tour de France sem hann vann.
Armstrong benti á að aðrir hjólreiðamenn sem einnig voru að nota lyf hafi sloppið við alla umfjöllun og kærur. Á meðan hefðu aðrir fengið „dauðadóm“.
Í viðtalinu á BBC sagði Armstrong að lífið hefði verið erfitt eftir að hann játaði brot sín í viðtali við Oprhu Winfrey í janúar. Þá segir hann að málið hafi haft mikil fjárhagsleg áhrif þar sem lögfræðikostnaðurinn væri enn að hlaðast upp.
„Ég hef upplifað mikinn persónulegan missi, mikinn fjárhagslegan skaða á meðan aðrir hafa hagnast á þessu máli.“
Spurður hvort hann sæi eftir að hafa veitt Winfrey viðtal svaraði hann: „Ég hefði þurft að svara þessum spurningum hvort sem er.“
Hann sagðist nú vona að tekið verði á málinu með réttlátum hætti. „Ef allir fá dauðadóm, þá skal ég gera það líka. Ef allir sleppa, þá geri ég það líka. Ef allir fá sex mánuði, þá tek ég mína sex mánuði.“