Rándýrt ungstirni til bjargar

Mateo Kovacic í leik með Inter Mílanó gegn Cagliari í …
Mateo Kovacic í leik með Inter Mílanó gegn Cagliari í ítölsku A-deildinni. AFP

Reiknað er fastlega með að einn allra efnilegasti leikmaður Króatíu, hinn 19 ára gamli Mateo Kovacic, verði í byrjunarliðinu gegn Íslandi í seinni umspilsleik liðanna á Maksimir-leikvanginum í kvöld.

Niko Kovac, þjálfari Króatíu, veðjaði á reynsluna í fyrri leiknum og fannst því mörgum skjóta skökku við að hann var með Ivo Ilicevic, 27 ára gamlan leikmann Hamburg, í liðinu sem spilar lítið með sínu félagsliði og á aðeins sjö landsleiki að baki.

Megn óánægja var með frammistöðu Ilicevic, meðal annars hjá þjálfaranum, og mun Kovacic væntanlega leysa Ilicevic af á miðsvæðinu á morgun. Þar verður hann við hlið stórstjörnunnar Luka Modric.

Uppalinn á Maksimir

Mateo Kovacic þekkir vel til á Maksimir-leikvanginum en hann var í herbúðum Dinamo Zagreb frá 2007 og allt þar til ítalska stórliðið Inter keypti hann fyrir 2,5 milljarða í janúar á þessu ári.

Þessi ungi drengur, sem fæddur er í Austurríki, er afskaplega góður að rekja boltann og er með mikla tækni. Hann mun án efa gera Aroni Einari Gunnarssyni lífið leitt á miðsvæðinu og styðja við sóknarleik Króatíu. Kovacic er þó hvorki stór né sterkur heldur meiri listamaður og verða því tveir teknískir leikmenn á miðju Króata, fari svo að Kovacic fái tækifærið.

Þetta er ekki eina breytingin sem reiknað er með að Kovac geri en fastlega er búist við að Ivica Olic, framherji Wolfsburg, sem kom inn á sem varamaður á Laugardalsvellinum byrji leikinn við hlið Mario Mandzukic í kvöld. Brasilíski Króatinn Eduardo fær því að taka sér sæti á bekknum.

Eduardo komst í færi eftir rúmar 50 sekúndur á Laugardalsvellinum en fékk svo ekki fleiri færi. Reyndar voru þau sárafá. tomas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert