Skylmingasamband Íslands hefur valið Þorbjörgu Ágústsdóttur, Skylmingafélagi Reykjavíkur, og Hilmar Örn Jónsson, Skylmingadeild FH, skylmingafólk ársins 2013.
Þorbjörg varð Norðurlandameistari kvenna í skylmingum með höggsverði árið 2013 í níunda skiptið. Þorbjörg hafnaði í 37. sæti á Evrópumeistaramótinu en um var að ræða sterkasta mót í skylmingaheiminum á þessu ári, segir í tilkynningu frá sambandinu. Einnig vann Þorbjörg Satellite-heimsbikarmót (Cole Cup 2013) í Newcastle á Englandi.
Hilmar vann það einstaka afrek að verða Norðurlandameistari í U21, Opna flokknum og í liðakeppni. Hilmar varð Íslandsmeistari í U21, Opna flokknum og í liðakeppni. Þetta er annað árið í röð sem Hilmar vinnur þessa flokka. Hilmar hefur verið lykilmaður í U21 ára og nú í karlalandsliðinu.