Aníta í fjórða sæti í New York

Frá Millrose-leikunum í kvöld.
Frá Millrose-leikunum í kvöld. Ljósmynd/@MillroseGames

Aníta Hinriksdóttir hafnaði í fjórða sæti í 800 metra hlaupi kvenna á Millrose-leikunum í New York í kvöld, stærsta frjálsíþróttamóti innanhússtímabilsins í Bandaríkjunum.

Hún hljóp vegalengdina á 2:02,66 mínútum en Ajee Wilson frá Bandaríkjunum sigraði á 2:01,81 mínútum.

Jenna Westaway frá Kanada varð önnur á 2:01,89 mínútum og Natoya Goule frá Jamaíka þriðja á 2:02,22 mínútum.

Aníta, sem er nýorðin 18 ára gömul, tók mikinn sprett seinni hluta hlaupsins og var fyrst um tíma en réð ekki við hinar á endasprettinum og varð að sætta sig við fjórða sætið.

Þær Wilson og Westaway verða báðar tvítugar á þessu ári og Goule er að verða 23 ára.

Charlene Lipsey frá Bandaríkjunum hljóp á 2:03,80 mínútum og Amanda Eccleston frá Bandaríkjunum varð sjötta og síðust á 2:04,80 mínútum. Diana Cruz frá Bandaríkjunum hætti keppni en hún var „héri“ í hlaupinu, þ.e. hélt uppi hraðanum framan af en hætti síðan.

Íslandsmet Anítu innanhúss, sem hún setti á Reykjavíkurleikunum 19. janúar, er 2:01,81 mínútur, nákvæmlega það sama og sigurtíminn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert