Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, sagði við mbl.is eftir 800 metra hlaupið á Millrose-leikunum í New York í kvöld að þessi keppni væri frábær reynsla fyrir hana og þarna hefði hún komið í annan og sterkari heim en í unglingahlaupunum sem hún hefur tekið þátt í á undanförnum misserum.
Aníta varð þar í fjórða sæti, 0,85 sekúndum frá Íslandsmeti sínu, eftir að hafa verið fyrst um tíma í seinni hluta hlaupsins. Þetta var hennar næstbesti tími í greininni, 2:02,66 mínútur, en Íslandsmet hennar frá því í janúar er 2:01,81 mínúta, nákvæmlega sami tími og hjá sigurvegaranum í kvöld, Ajee Wilson.
„Ég er sáttur við hlaupið þó útfærslan hafi reyndar ekki verið alveg eins og við áætluðum. Hlauparinn sem hafði tekið að sér að halda uppi hraða upp á 59 sekúndur á fyrri 400 metrunum gerði það ekki, og var ekki einu sinni fyrstur.
Aníta brá kannski heldur hart við þegar hún sá að millitíminn var talsvert frá því sem hún ætlaði. Þetta er það sem hún er að læra í hlaupum við sterka eldri hlaupara. Mismunandi taktík og að eyða ekki of miklum kröftum í hraðabreytingar. Eiga frekar kraftinn í síðustu 150 metrana,“ sagði Gunnar Páll.
Alltaf að færast skrefi nær þeim bestu
Þær Ajee Wilson og Jenna Westaway, sem urðu í tveimur efstu sætunum, eru tveimur árum eldri en Aníta, sem var yngst af hlaupurunum sjö sem tóku þátt í mótinu.
„Já, Ajee Wilson er tveimur árum eldri og komin með mun meiri reynslu en Aníta. En þetta hlaup er frábær reynsla fyrir hana og hún er alltaf að færast skrefi nær þeim bestu í fullorðinsflokki. Hún hefur unnið öll hlaup í unglingaflokki en þetta er aðeins annar og sterkari heimur. Hún mun nú æfa af krafti fyrir næsta verkefni þar sem hún glímir við eldri hlaupara, heimsmeistaramótið innanhúss í Póllandi í byrjun mars,“ sagði Gunnar Páll við mbl.is.