Aníta dæmd úr leik

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Golli

Aníta Hinriksdóttir var dæmd úr leik eftir riðlakeppni 800 metra hlaups kvenna á heimsmeistaramótinu innanhúss í frjálsíþróttum í Sopot. Aníta kom önnur í mark, en svo virðist sem hún hafi stigið á línu.

Sjá einnig frétt mbl.is: Hefði dugað til úrslita jöfnunar heimsmets

Aníta fór hratt af stað og var í forystu fyrstu 500 metrana, en missti þá Angeliku Chicocka fram úr sér. Chichocka kom fyrst í mark á 2:00,37 mín. og er því komin í úrslit. Tími hennar var besti ársins í 800 metra hlaupi. Aníta varð önnur í mark á 2:01,03 mín. Hefði tíminn staðið hefði hún jafnað heimsmet unglinga í greininni.

Keppt er í þremur riðlum. Fyrsti keppandi í mark í hverjum riðli kemst í úrslit og svo þrír keppendur með bestu tímana fá hin sætin þrjú í úrslitum, en sex keppa til úrslita klukkan 15.35 á sunnudag. Aníta keppti í fyrsta riðlinum í dag.

Besti tími Anítu það sem af er ári er 2:01,81 mín. en Íslandsmet hennar er 2:00,49 mín.

Þetta er fyrsta heimsmeistaramótið í fullorðinsflokki sem Aníta keppir á. Hún tók þátt í Evrópumótinu innanhúss í Gautaborg á síðasta ári og endaði þá í 11. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert