„Ég heyrði ekki betur á Anítu áðan en hún væri bara sátt við að vera í þessum riðli þar sem einna bestu hlaupararnir eru,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hlaupakonunnar Anítu Hinriksdóttur, sem keppir í dag í 800 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss í Sopot í Póllandi.
„Meðal keppenda í riðlinum er Laura Muir frá Bretlandi sem átti besta tíma ársins í 800 m hlaupi þar til á dögunum að tvær bandarískar konur náðu betri tíma á bandaríska meistaramótinu. Annars eiga allir keppendur í riðlinum hennar Anítu betri tíma í 800 m hlaupi en hún að Roseanne Galligan frá Írlandi undanskilinni. Galligan hljóp á RIG-mótinu í Laugardalshöll í janúar,“ sagði Gunnar Páll. „Eins er sterk pólsk stúlka í riðlinum þannig að ég held að framundan sé jöfn og skemmtileg keppni hjá Anítu.“
Alls taka 18 hlauparar þátt í undankeppni 800 m hlaupsins sem hefst klukkan 12 í dag.
Viðtalið við Gunnar Pál er að finna í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.