Alþjóðafrjálsíþróttasambandið tilkynnti rétt í þessu að kæru vegna Anítu Hinriksdóttur í undanriðli 800 metra hlaups kvenna á heimsmeistaramótinu í Sopot í Póllandi hefði verið hafnað.
Aníta steig á línu snemma í hlaupinu í dag. Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari hennar skýrði mbl.is frá því að lögð hefði verið fram kæra en sagði þá að vonin um að dæmt yrði Anítu í hag væri afar veik.
Það er því endanlega ljóst að Aníta hefur lokið keppni í Sopot en tími hennar í hlaupinu, 2:01,03 mínútur, hefði verið bæði Íslandsmet fullorðinna og jöfnun á heimsmeti unglinga, og hefði tryggt henni sæti í úrslitahlaupi þeirra sex bestu um heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn.