Linda Brá: Hengdum aldrei haus

„Þær eru mjög sterkar og eiga í rauninni að vera sterkasti mótherjinn okkar þannig að 5:2 er ekki hræðilegt en okkur finnst þær tölur ekki segja alla söguna,“ sagði Linda Brá Sveinsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í íshokkíi, við mbl.is eftir ósigur gegn Slóveníu í öðrum leik liðsins á HM.

„Við börðumst allan tímann og gáfumst aldrei upp og ég get verið stolt af liðinu mínu fyrir það. Við hættum aldrei og hengdum aldrei haus, það er það sem ég vil sjá í næsta leik gegn Króatíu,“ sagði Linda. Hún kom Íslandi yfir snemma leiks en liðið fékk á sig fimm mörk áður en þær minnkuðu muninn á ný í lokin. Hún segir það mark gríðarlega mikilvægt.

„Það er punkturinn yfir i-ið og sýnir að við gefumst ekki upp. Á svona móti þýðir ekkert að gefast upp þótt maður sé kominn undir, það á aldrei að hætta,“ sagði Linda, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert