Emil Alengård hefur gegnt lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu í A-riðli 2. deildar HM í íshokkíi í Belgrad líkt og undanfarin ár. Hann hefur lagt upp 3 mörk og skorað 1 í fyrstu tveimur leikjunum.
Ísland tapaði gegn Eistlandi í fyrsta leik, 4:1, en vann svo frækinn sigur á Belgíu, 6:3. Næst mætir liðið Ástralíu á morgun kl. 14.30. Sem fyrr segir hefur Emil verið lykilmaður í uppgangi Íslands síðustu ár en hann lítur ekki á sig sem neina stjörnu í liðinu.
„Nei, nei. Ég veit samt að ég er kannski reyndari en flestir hérna og reyni bara að gefa gott fordæmi, og miðla af minni reynslu,“ sagði Emil.
„Þetta er mitt níunda ár og núna er ég orðinn smá-pabbi. Síðan ég byrjaði hefur Ingvar [Þór Jónsson, fyrirliði] samt verið pabbinn í liðinu. Ég kalla hann ekkert Ingvar, ég segi bara pabbi í staðinn. Hann er orðinn svolítið gamall en hann er besti fyrirliði sem ég hef nokkurn tímann haft,“ sagði Emil. Aðspurður út í fleiri leikmenn íslenska liðsins minntist Emil á mikilvægi Jónasar Breka Magnússonar, sem hefur meðal annars það hlutverk að koma andstæðingunum úr jafnvægi með orðum og gjörðum.
„Það er rosalega gaman og gott að hafa Breka í liðinu. Hann var rosalega mikilvægur í sigrinum á Belgíu. Hann fékk Belgana til að hugsa um eitthvað annað en leikinn, missa einbeitinguna og verða reiða, og við nýttum okkur það. Hann talar við þá og er bara ógeðslegur. Það er rosalega gott að hafa einn svona í hverju íshokkí-liði. Breki er með þetta hlutverk hjá okkur og hann er snillingur í því,“ sagði Emil. Hann segir framtíð íslenska landsliðsins bjarta.
„Strákarnir sem eru að koma upp hjá okkur vita meira en þeir sem komu upp fyrir nokkrum árum. Það má taka Andra Má Helgason sem dæmi. Hann er rosalega hæfileikaríkur og það þarf að hlúa vel að svona leikmönnum. Annað dæmi er Bjössi [Björn Róbert Sigurðarson] sem spilar í Bandaríkjunum. Svo eru mikið fleiri strákar að koma upp, strákar sem eru ekkert endilega með landsliðinu núna, svo framtíðin er björt. Við eigum góða möguleika á að komast upp í 1. deild áður en langt um líður, en auðvitað þarf þá allt að ganga upp. En við sjáum það núna, að það vantaði ekki mikið gegn besta liðinu, Eistlandi,“ sagði Emil.
Ítarlegt viðtal við Emil er í Morgunblaðinu í fyrramálið.
Ísland mætir Ástralíu á morgun kl. 14.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.