Ísland þurfti framlengingu til að leggja Ástralíu að velli, 3:2, í A-riðli 2. deildar á HM í íshokkí sem fram fer í Belgrad. Jóhann Már Leifsson var hetja Íslands en hann jafnaði metin þremur mínútum fyrir leikslok, og skoraði svo sigurmarkið í framlengingunni.
Sigur í framlengingu færir Íslandi tvö stig og liðið er því í 2.-3. sæti ásamt Belgíu með 5 stig eftir 3 leiki. Eistland er með 6 stig og á leik til góða við Serbíu í kvöld. Næsti leikur Íslands er gegn Serbum á mánudagskvöld kl. 18 að íslenskum tíma.
Ísland fékk draumabyrjun í dag þegar Robin Hedström skoraði strax á 3. mínútu eftir að hafa fengið pökkinn frá Emil Alengård, í kjölfarið á skoti Ingvars Þórs Jónssonar fyrirliða. Áströlum gekk illa að ógna íslenska markinu í fyrsta leikhluta og útlitið var því gott eftir fyrstu 20 mínúturnar. Í 2. leikhluta fór hins vegar allt í vaskinn. Mark Rummukainen jafnaði metin og lagði svo upp annað fyrir Greg Oddy skömmu síðar.
Íslenska liðið sótti án afláts í 3. leikhluta til að jafna metin en það virtist ekki ætla að bera árangur fyrr en Jóhann tók til sinna mála, rétt rúmum þremur mínútum fyrir leikslok. Hann var svo fljótur að tryggja sigurinn í framlengingunni, lagði pökkinn frábærlega fyrir sig í miðjuhringnum, geystist einn að markinu og skoraði.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í dag og fjallað verður um leikinn í 8 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudaginn.
Ísland - Ástralía, 3:2
(Robin Hedström 3., Jóhann Már Leifsson 57., 61. - Mark Rummukainen 27., Greg Oddy 34.)
61. Leik lokið.
61. MARK! (3:2) Það tók slétta mínútu að gera út um þetta. Jóhann Már Leifsson skoraði aftur og tryggði Íslandi tvö stig. Hann gerði hrikalega vel í því hvernig hann tók við pekkinum á miðjunni og bjó sér til hreina leið að markinu, og skoraði að sjálfsögðu.
60. Leikhluta 3 lokið. (2:2) Staðan jöfn og við fáum þá framlengingu. Það er mikið skárra en að fara stigalausir út úr þessum leik. Það þurfti vítakeppni til að skera úr um sigurvegara þegar liðin mættust í fyrra og spurning hvort sú verði aftur raunin núna.
57. MARK! (2:2) JÁÁÁÁÁÁ! Gríðarlega mikilvægt að ná þessu marki ef það þýðir að við fáum alla vega eitt stig út úr leiknum. Jóhann Már Leifsson skoraði það, fékk sendingu frá Ólafi, var fyrir aftan markið en stakk sér fram fyrir það og skoraði.
56. Óhemju stíf pressa af hálfu Íslands en ekki tekst að skora. Ástralir fengu manninn sinn inná og voru afar nærri því að skora þriðja markið sitt.
54. Ástralir missa mann af velli.
54. Robin slapp einn gegn markverði og reyndi að leika á hann en skotið var svo varið.
53. Jón Gíslason með frábæra tilburði, fíflaði varnarmann og komst einn gegn markverði en skotið var varið.
50. Úff. Þarna munaði bara engu að Ísland jafnaði metin. Jón fékk pökkinn eftir fallegan undirbúning Emils og átti fínt skot sem var varið. Robin fékk frákastið en skóflaði pekkinum einhvern veginn yfir markið úr dauðafæri.
48. Jóhann með góða tilburði, skautaði aftur fyrir markið og gaf út þar sem Breki var í barátunni og nærri því að koma skoti á markið af stuttu færi.
46. Ástralir missa mann af velli fyrir að skella Jóhanni út í glerið.
45. Robin fékk pökkinn frá Emil og lék laglega á varnarmann en náði svo aðeins lausu skoti að marki sem var varið. Dropinn fer vonandi að hola steininn hérna.
43. Aftur jafnt í liðum. Ástralir geta prísað sig sæla að vera áfram með forystuna.
42. Jón með skot í netið utanvert eftir að pökkurinn hrökk til hans frá Robin.
41. Ingvar nálægt því að jafna metin þegar hann kom á ferðinni og fékk sendingu út frá Emil en skotið var varið.
41. Ástralir missa strax mann af velli.
41. Jæja, koma svo! Tuttugu mínútur til stefnu til að leiðrétta þennan forsendubrest sem er í uppsiglingu.
40. Leikhluta 2 lokið. (1:2) Þetta hlé þarf að nýta vel. Strákarnir ganga draugfúlir af velli eftir að hafa afhent Áströlum forystuna í 2. leikhluta. Þeir geta mikið betur en þetta og hafa vonandi orkuna og úthaldið til að sýna það í lokaþriðjungnum.
40. Jónas Breki og Brynjar í hættulegri skyndisókn en náðu því miður ekki skoti á markið.
39. Ólafur Hrafn Björnsson nærri því að jafna metin. Pökkurinn dansaði í loftinu, rétt fyrir utan markið, og minnstu munaði að hann kæmi honum í netið.
38. Emil komst í mjög gott færi eftir að hafa komið með pökkinn frá hægri inn að markinu en hann beið aðeins of lengi með skotið sem fór af varnarmanni og skaust yfir glerið.
34. MARK! (1:2) Fokk. Þetta er fljótt að gerast. Ástralarnir eru allt í einu komnir yfir. Rummukainen fékk pökkinn hægra megin, rétt framan við bláu línuna og lét vaða. Greg Oddy breytti stefnu skotsins og stýrði pekkinum í netið. Þetta var nákvæmlega eins og rætt var um á liðsfundi að Ástralir myndu reyna að skora mörkin sín.
32. Þung sókn Íslands í tvær mínútur en nú eru Ástralar aftur með fullskipað lið. Orri Blöndal átti meðal annars hörkuskot rétt yfir markið.
30. Jóhann Már Leifsson fékk pökkinn óvænt úti fyrir miðju marki og kom sér í gott færi en hann var felldur og Ástralinn sem það gerði er sendur út af í kælingu. Nýta þetta strákar!
27. MARK! (1:1) Æ, æ, æ. Ástralir jafna metin. Mark Rummukainen fékk pökkinn úti vinstra megin og lét vaða af nokkuð löngu færi og skoraði. Dennis var æfur við dómarann, taldi líklega að brotið hefði verið á sér í skotinu. Sá lætur sér fátt um finnast.
26. Úff. Ísland missir mann í refsiboxið fyrir að hafa of marga inná svellinu í einu. Klaufalegt. Ástralarnir fljótir að búa sér til færi og pökkurinn small í stönginni!
25. Aftur jafnt í liðum. Ísland átti nokkrar ágætar marktilraunir, Robin þá bestu, en alltaf sá markvörður Ástrala við þeim.
23. Einn Ástralinn er sendur í skammarkrókinn, fyrir að krækja, og er þar með fyrstur til þess í leiknum. Þetta gæti Ísland nýtt til að tvöfalda forskotið.
23. Hætta á ferð. Ingþór misreiknaði pökkinn aðeins úti við glerið og Liam Webster slapp þá einn gegn Dennis sem varði hins vegar.
21. Leikur hafinn að nýju. Menn aðeins búnir að fá að pústa í korter.
20. Leikhluta 1 lokið. (1:0) Robin Hedström sá til þess að Ísland er 1:0 yfir með sínu fjórða marki í mótinu. Ástralir hafa nánast ekkert getað opnað íslensku vörnina og Dennis séð við þeim skotum sem á markið koma. Forskotið er nú samt eins naumt og það getur orðið. Aðalatriðið er að vinna þennan leik, markatalan kemur ekki til með að skipta máli þar sem Ástralir verða alveg örugglega ekki í baráttu um verðlaunasæti.
18. Góð sókn hjá Íslandi. Ingþór kom pekkinum á Pétur sem sendi út, fyrir aftan rauðu línuna, og þar náði Jóhann Már Leifsson skoti af stuttu færi sem var varið.
15. Þetta er í fyrsta sinn í mótinu þar sem maður er ekki með hnút í maganum allan fyrsta leikhlutann. Ástralarnir ógna lítið og Dennis hefur það því bara nokkuð náðugt í markinu, alla vega hingað til.
10. Hættulegasta færi Ástrala til þessa. Fyrirliðinn Greg Oddy komst við annan mann gegn einum varnarmanni Íslands og reyndi skot úr frekar þröngu færi vinstra megin sem Dennis varði að sjálfsögðu.
8. Ohh, Jónas Breki svakalega nálægt því að auka muninn í 2:0 en skot hans af stuttu færi hægra megin var naumlega varið.
7. Hættuleg sókn hjá íslenska liðinu, Robin og Emil að skiptast á með pökkinn við rauðu línuna áður en Emil átti skot sem Robin elti en markvörður Ástrala handsamaði pökkinn.
3. MARK! (1:0) Þarna! Strákarnir fljótir að ná forystunni. Ingvar fyrirliði átti skot af löngu færi sem var varið en Emil náði frákastinu og kom pekkinum á Robin Hedström sem var fljótur að ná skotinu og skoraði. Það virtist taka samherja hans nokkra stund að átta sig á að pökkurinn hefði farið inn, nokkrar sekúndur liðu en svo var fagnað! Svona á að byrja þetta.
1. Leikur hafinn!
0. „Það er stórkostlegt tilfinning að fá að standa bláklæddur með liðinu eftir sigurleik, horfa á fánann og kyrja með íslenska þjóðsöngnum,“ sagði Emil eftir sigurinn á Belgum. Vonandi fá strákarnir að upplifa það sama eftir að þessum leik lýkur. Þetta er að byrja.
0. Ísland vann Ástralíu í fyrsta sinn þegar liðin mættust á HM fyrir ári síðan í Zagreb. Það tókst þó ekki fyrr en í æsispennandi vítakeppni þar sem Emil Alengård skoraði eina markið en Dennis Hedström varði fjögur skot Ástrala. Robin Hedström og Pétur Maack höfðu komið Íslandi í 2:0 snemma leiks en Ástalir jöfnuðu metin tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
0. Fjörutíu mínútur í leik og nú koma menn sér inn á svellið til að hita upp. Strákarnir eru fyllilega meðvitaðir um að þeir þurfa líka að eiga toppleik í dag til að landa sigri.
0. Það er ekki einleikið hvað íshokkímenn geta verið hjátrúarfullir. Leikmenn og þjálfarar mættu að vanda afar prúðbúnir hingaði í Pionir-höllina en Tim Brithén þjálfari skar sig talsvert úr þar sem hann klæddist litríkum íþróttaskóm við jakkafötin sín. Ástæðan er sú að þegar Ísland vann Belgíu á fimmtudaginn hafði hann gleymt spariskónum á æfingu um morguninn, og neyðst til að fara í íþróttaskónum á leikinn. Nú vonast Svíinn til að skórnir skili öðrum sigri, tja, eða er alla vega ekki tilbúinn að taka sénsinn á að gæfan sem þeim hugsanlega fylgir glatist!
0. Belgía var að vinna Ísrael í framlengdum leik, 4:3, og þar með aukast vonir Íslands um silfur enn. Þá er fjarlægi möguleikinn á gulli enn til staðar, ef Eistland tapar til dæmis fyrir Belgum á þriðjudaginn. Þið getið rýnt í stöðuna HÉRNA.
0. Góðan dag kæru lesendur! Nú sé stuð. Framundan er leikur við Ástrali og vonandi fá okkar menn ekki sigurinn góða á Belgum eins og búmerang í andlitið í dag, gegn liði sem hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa. Værukærð og vanmat er ekki í boði í þessum riðli, það hefur alveg sýnt sig í mótinu til þessa.
Íslenski hópurinn:
Andri Freyr Sverrisson, Andri Már Helgason, Andri Már Mikaelsson, Birkir Árnason, Björn Már Jakobsson, Brynjar Bergmann, Dennis Hedström (M), Emil Alengard, Ingólfur Tryggvi Elíasson, Ingvar Þór Jónsson, Ingþór Árnason, Jóhann Már Leifsson, Jón Benedikt Gíslason, Jónas Breki Magnússon, Orri Blöndal, Ólafur Hrafn Björnsson, Pétur Maack, Robin Hedström, Róbert Freyr Pálsson, Sigurður Reynisson, Snorri Sigurbergsson, Úlfar Jón Andrésson.