„Þetta var heldur tæpt í dag en þetta hófst á endanum,“ sagði Orri Blöndal eftir að Ísland vann 3:2-sigur á Ástralíu í dag, í framlengdum leik í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí.
Íslanda vann sögulegan sigur á Belgíu á fimmtudaginn, 6:3, en átti erfiðara með að eiga við baráttuglaða Ástrali sem börðust fyrir lífi sínu í dag. Ástralía skoraði bæði mörk sín í 2. leikhluta, komust í 2:1, og Orri segir Tim Brithén þjálfara hafa sagt vel valin orð fyrir lokaþriðjunginn.
„Ég veit ekki hvort menn hafa mætt of sigurvissir í þennan leik eftir að hafa unnið Belga í fyrradag. Þeir tóku yfir aðra lotuna en þjálfarinn okkar, Tim, tók svo góða ræðu yfir okkur, og sparkaði í rassinn á mönnum,“ sagði Orri sem var alls ekki orðinn vonlítill þegar Jóhann Már Leifsson jafnaði metin í lokin.
„Ég bjóst alltaf við því að við myndum skora. Þegar markið kom var ég svo viss um að við myndum taka framlenginguna,“ sagði Orri. Næsti leikur Íslands er gegn heimamönnum í Serbíu á mánudagskvöldið kl. 18 að íslenskum tíma.
„Serbarnir verða mjög sterkir í byrjun leiks. Þeir mæta hérna með fulla höll og af fullum krafti þannig að við verðum að halda vel aftur af þeim fyrstu tíu mínúturnar. Þetta eru mjög jöfn lið,“ sagði Orri.