Dennis Hedström er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum sem hann óttaðist að kæmu í veg fyrir að hann gæti spilað með Íslandi á HM í íshokkí í Serbíu. Hann hefur hins vegar leikið afar vel að vanda og er með bestu markvörsluna á mótinu til þessa.
„Mér líður vel, bæði í fótum og hausnum. Ég er samt að koma tilbaka eftir slæm meiðsli í öxlinni, sem ég þurfti að fara í aðgerð út af í desember. Ég finn ekkert fyrir þessu núna en ég var áhyggjufullur fyrir mótið,“ sagði Dennis við mbl.is í kvöld. Hann verður í eldlínunni á morgun, mánudagskvöld, þegar Ísland mætir Serbíu kl. 18 í A-riðli 2. deildar sem spilaður er í Belgrad. Ísland er með 5 stig í 2. sæti riðilsins en Serbar með 3 stig, nú þegar tvær umferðir eru eftir.
Markverðirnir veikur hlekkur
„Þetta verður erfiður leikur gegn gestgjöfunum, frammi fyrir miklum áhorfendafjölda. Þeir hafa spilað betur og betur með hverjum leiknum, og eru með sterkt lið, sérstaklega í sókninni. Varnarlega eru þeir aðeins veikari fyrir, og sérstaklega hafa markverðirnir þeirra rokkað upp og niður í mótinu. Vonandi getum við skapað færin til að nýta það,“ sagði Dennis.
„Þeir eru líka með mikið skap. Við verðum að fara af krafti í þá og nýta okkur það. Ef okkur tekst að fá einn til þess að hætta að hugsa um leikinn, þá fylgja hinir í kjölfarið,“ bætti Dennis við. Ísland tapaði 4:1 fyrir Eistlandi í fyrsta leik en hefur síðan unnið Belgíu 6:3 og svo Ástralíu í framlengdum leik í gær, 3:2.
Skemmtilegra með hverju árinu
„Þetta hefur gengið mjög vel. Við vissum að erfitt yrði að mæta Eistlandi en stóðum okkur vel. Frammistaðan gegn Belgum var frábær, og einnig gegn Ástralíu. Við náðum að snúa báðum leikjum okkur í vil í 3. leikhluta. Við erum í góðu standi og notum allan hópinn, allar fjórar línurnar, sem er mjög mikilvægt. Það þekkja allir sín hlutverk,“ sagði Dennis, sem gegnir stóru hlutverki í uppgangi landsliðsins síðustu ár.
„Við verðum reynslumeiri með hverju mótinu, og það var það sem okkur skorti helst. Núna eru örfáir nýir í hópnum, bara 2-3, þannig að ungu strákarnir vita nákvæmlega sín hlutverk þegar þeir hoppa inn. Leikmenn þekkja hvern annan vel og liðsandinn er sá besti sem ég hef nokkru sinni kynnst, bæði í félagsliðum og landsliðum. Það er svo gaman að spila með þessu liði, og verður bara skemmtilegra með hverju árinu,“ sagði Dennis, sem á íslenska móður og hefur líkt og Robin bróðir hans alltaf spilað fyrir íslenska landsliðið.
„Okkur líður eins og við séum að koma heim í hvert skipti sem landsliðið kemur saman, og maður fær að hitta vini sína. Maður bíður alltaf í ofvæni eftir þessum tíma ársins,“ sagði Dennis.
Leikur Íslands og Serbíu hefst eins og áður segir kl. 18 að íslenskum tíma og er að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á mbl.is.