„Við gerðum þetta að óþarflega miklu stressi fyrir okkur. Við duttum niður á slakara plan í 3. lotu og létum stúkuna hafa svolítil áhrif á okkur,“ sagði varnarmaðurinn öflugi Andri Már Helgason eftir sigur Íslands á Serbíu á HM í íshokkí, þar sem úrslitin réðust í vítakeppni.
Ísland komst í 3:0 í leiknum en Serbar minnkuðu muninn í 2. leikhluta og jöfnuðu metin með tveimur mörkum í lokaleikhlutanum. Því varð að framlengja og svo grípa til vítakeppni þar sem Andri var sigurviss.
„Það var engin spurning að við værum að fara að taka þetta. Við erum með mjög tekníska leikmenn svo þetta var engin spurning,“ sagði Andri.
Ísland er í 2. sæti A-riðils 2. deildar HM og myndi tryggja sér silfurverðlaun með því að ná einu stigi gegn Ísrael á morgun kl. 14.30.
„Við erum að fara að taka þetta lið. Við ætlum að ná silfrinu og okkar besta árangri frá upphafi,“ sagði Andri.