Brithén: Ég elska þetta lið

Tim Brithén, landsliðsþjálfari karla í íshokkí.
Tim Brithén, landsliðsþjálfari karla í íshokkí. mbl.is/Styrmir Kári

„Okkur hefur tekist að láta hreinlega allt smella frá byrjun,“ sagði Tim Brithén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í íshokkí, eftir að það landaði silfurverðlaunum í A-riðli 2. deildar HM í dag. Svíinn hefur  mikinn áhuga á að halda áfram með liðið en samningur hans gilti út mótið.

Ísland tryggði sér silfurverðlaunin með því að vinna botnlið Ísraels í vítakeppni í dag. Þar með féll Ísrael niður í B-riðil.

„Ég er pínulítið vonsvikinn því mér fannst allt ganga á afturfótunum í þessum leik. Ég notaði öll trixin í bókinni til að vekja liðið til lífsins. Svo skoruðum við loksins og náðum að vinna í vítakeppni,“ sagði Tim við mbl.is eftir leikinn.

„Það voru mörg augljós merki um það að menn væru taugaóstyrkir. Það er erfitt fyrir þjálfara. Það stoðar ekkert að öskra á þá, ég hefði auðveldlega getað gert það en það gerir ekkert gagn. Það fengu allir að spila einfaldlega vegna þess að ég þurfti að vekja liðið. En við náðum að jafna 3:3 og vinna í vító, og það var vel gert hjá liðinu,“ bætti Tim við. Hann stýrði Íslandi til besta árangurs liðsins frá upphafi, í fyrstu tilraun.

„Jafnvel eftir þennan árangur þá eigum við mikið verk fyrir höndum og strákarnir finna það líka. Það hvetur okkur áfram til að gera enn betur. Við erum nálægt því að komast á næsta stig en þurfum að leggja hart að okkur, ekki bara í leikjum og á landsliðsæfingum heldur alltaf,“ sagði Tim.

„Ég held að við höfum náð öllu sem hægt var út úr liðinu, annars hefðum við ekki fengið silfurverðlaun. Við erum ekki það góðir ennþá og verðum bara að halda áfram af krafti,“ bætti hann við.

Framtíðin er óráðin hjá Tim sem íhugar að taka aftur við þjálfun félagsliðs í Svíþjóð í haust. Hvort sem af því verður þá hefur hann fullan áhuga á að þjálfa Ísland áfram, sé vilji til þess af hálfu Íshokkísambandsins.

„Ég veit ekkert um framtíðina. Ég elska þetta lið og finnst ég hafa fengið góð svör frá leikmönnum. Vonandi heldur þetta áfram en ég veit ekkert um það,“ sagði Tim.

Tim neyddist óvart til að fara í íþróttaskóm við sparifötin …
Tim neyddist óvart til að fara í íþróttaskóm við sparifötin í annan leik mótsins, gegn Belgíu. Skórnir færðu gæfu og hann klæddist þeim því einnig í þeim þremur leikjum sem eftir voru, sem allir unnust. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert