Ingvar: Maður var hálf meyr eftir þetta

Ingvar Þór Jónsson fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí hefur spilað með liðinu frá því að það tók fyrst þátt á HM, árið 1999. Hann fagnaði í dag besta árangri liðsins frá upphafi eftir að það tryggði sér silfurverðlaun í A-riðli 2. deildar.

Ísland vann Ísrael í vítakeppni í dag og hafnaði þar með í 2. sæti riðilsins, fyrir ofan Ástralíu, Belgíu, Serbíu og Ísrael. Eistland vann riðilinn og komst upp í 1. deild.

„Þetta er bara meiriháttar. Maður var hálf meyr þarna inná eftir sigurinn,“ sagði Ingvar við mbl.is eftir leikinn í dag.

„Við erum afar sáttir. Við fórum lengri leiðina og erum að verða býsna seigir í því, að fara í framlengingar og vítakeppnir og klára þetta þar. Þetta var ótrúlega jafnt og okkur tókst að klára þessa leiki þó að þetta væri aðeins jafnara en við hefðum viljað,“ sagði Ingvar. Ísland vann tvo síðustu leiki sína í vítakeppni eftir að hafa unnið Ástralíu í framlengingu.

„Þetta sýnir hvað við erum orðnir stöðugir. Þegar við eigum slakan dag þá er hann ekki það slakur að við töpum. Þegar við eigum góðan dag er svo fátt sem stöðvar okkur.“

Svíinn Tim Brithén stýrði Íslandi í fyrsta sinn í mótinu í ár og fyrirliðinn er ánægður með innkomu hans.

„Tim er frábær þjálfari og nákvæmlega það sem þetta lið þurfti á þessum tímapunkti, til að taka þetta skref og ná silfrinu. Hann var fljótur að lesa hópinn, lesa styrkleika hvers og eins og setja liðið saman. Gefa okkur öllum hlutverk og svona, og þess vegna lönduðum við silfrinu,“ sagði Ingvar.

Ísland hefur tekið sífelldum framförum síðustu ár en ætli það að bæta árangur sinn á næsta ári þarf það að gjöra svo vel og komast upp í 1. deild.

„Auðvitað væri það draumurinn að komast upp í 1. deild á næstu árum en við sjáum það að Eistland er rosalega sterkt lið, bara með atvinnumenn, sem rúllar upp þessu móti. Til að komast upp í 1. deild þurfum við að fjölga iðkendum, fjölga liðum og styrkja deildina heima fyrst og fremst,“ sagði Ingvar. Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndbandi.

Ísland fékk silfur í fyrsta sinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert