Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni fékk í gær boð um þátttöku í sjötta Demantamóti ársins í frjálsum íþróttum sem verður haldið í New York 14. júní.
Þetta staðfesti Ásdís við Morgunblaðið í gærkvöld og að hún hefði jafnframt þegið boðið og yrði því meðal þátttakenda í New York.
Þetta er annað mótið í Demantamótaröðinni sem Ásdísi er boðið á. Hún varð að afþakka boð frá mótshöldurum í Doha í Katar á mótið sem var haldið þar í gær, þar sem það passaði því miður ekki í dagskrána hjá henni.
„Mér líst mjög vel á þetta mót og er bara spennt fyrir þessu. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem ég fer á mótið í New York og þetta er skemmtilegt mót. Svo þetta er spennandi verkefni og smellpassar í planið hjá mér,“ sagði Ásdís við Morgunblaðið í gærkvöld.
Það eru því góð tíðindi fyrir Ásdísi að hún verði meðal þátttakenda í New York í næsta mánuði, en aðeins bestu keppendum í hverri grein er boðið á Demantamótin.
Ásdís hefur keppnistímabilið formlega 17. maí þegar hún keppir í Halle í Þýskalandi á alþjóðlegu móti.